Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
banner
   fim 31. október 2024 15:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grótta í tvöfaldri þjálfaraleit - „Höfum hitt alls konar fólk"
Grótta fagnar marki síðasta sumar.
Grótta fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Igor Bjarni Kostic stýrði Gróttu undir lok síðasta tímabils.
Igor Bjarni Kostic stýrði Gróttu undir lok síðasta tímabils.
Mynd: Grótta
Matthías Guðmundsson er farinn í Val.
Matthías Guðmundsson er farinn í Val.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það eru ekki mörg þjálfarastörf í íslenskum fótbolta á lausu þessa stundina en hjá Gróttu vantar aðalþjálfara hjá bæði karla- og kvennaliðinu.

Karlalið Gróttu féll úr Lengjudeildinni á nýliðnu tímabili en Chris Brazell var látinn fara úr þjálfarastólnum eftir slæmt gengi í sumar.

„Staðan er bara sú að við erum þjálfaralaus. Það er bara staðan," sagði Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu, við Fótbolta.net í dag.

„Það er búið að liggja lengi fyrir karlamegin að við erum í þjálfaraleit. Menn eru svolítið búnir að vera að bíða eftir því að sjá hvað myndi gerast í Bestu deildinni, hvort að það færi einhver þjálfarakapall af stað. Sem varð ekki. Það hefur verið mjög lítil hreyfing," segir Þorsteinn en hann vonast til að málin skýrist fljótlega hver stýri Gróttu í 2. deild karla næsta sumar.

„Það er orðið áríðandi fyrir okkur að klára þetta. Ég vonast til að um aðra helgi verði komin skýrari mynd."

Við höfum rætt við alls konar fólk
Ferlið er ítarlegt hjá Gróttu og eru Seltirningar búnir að ræða við alls konar fólk í leit sinni að þjálfara fyrir karlaliðið.

„Við höfum hitt alls konar fólk, ráðgjafa og annað til að átta okkur á því hvaða þjálfara við viljum, hvaða týpu við viljum fá. Við höfum rætt við alls konar fólk, ekki 100 manns, en við höfum hitt nokkra sem koma til greina og aðrir hafa látið vita af sér. Við höfum fengið ábendingar úr ýmsum áttum," segir Þorsteinn.

Igor Bjarni Kostic kláraði nýliðið tímabil sem þjálfari Gróttu. Er möguleiki á að hann haldi áfram með liðið?

„Hann er eitt af þeim nöfnum sem er í hattinum hjá okkur, það er klárt mál. Við vorum ofboðslega ánægð með hans innkomu á mjög erfiðum tíma hjá liðinu. Það hefðu ekki allir treyst sér í svona verkefni en hann gerði það. Við erum honum gríðarlega þakklát fyrir það. Hann er klárlega eitt af nöfnunum í hattinum hjá okkur."

Stærsta starfið í kvennaboltanum
Kvennaliðið gerði frábæra hluti og var næstum komið upp í Bestu deildina á nýliðnu tímabili. En það var tilkynnt í gær að Valur hefði ráðið Matthías Guðmundsson sem nýjan þjálfara. Matthías hafði stýrt Gróttu í eitt sumar og var mikils metinn innan félagsins.

„Kvennamegin er þetta nýskeð, nýbúið að gerast og við erum að reyna að ná áttum," segir Þorsteinn.

„Við erum svekkt að sjá á eftir honum og kveðjum hann með söknuði. Við hefðum viljað hafa hann lengur. En við samgleðjumst honum á sama tíma að fá þetta tækifæri. Þetta er stærsta starfið í kvennaboltanum. Við erum stolt af því fyrir hans hönd að fá þetta tækifæri og sjá enn einn fulltrúa Gróttustarfsins taka skrefið upp á hæstu stig í íslenskum fótbolta."

„Við hefðum viljað hafa hann lengur en erum ánægð að hann fái þetta tækifæri. Við hlökkum til að fylgjast með honum," segir Þorsteinn en það verður fróðlegt að sjá hvaða þjálfara Grótta mun ráða.
Athugasemdir
banner
banner
banner