Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 11. febrúar 2011 07:00
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Klóki skemmtikrafturinn
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Ian Holloway.
Ian Holloway.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ian Holloway hefur náð mögnuðum árangri með lið Blackpool í vetur. Þrátt fyrir að liðið hafi nú tapað fimm leikjum í röð í úrvalsdeildinni er árangurinn heilt yfir á tímabilinu stórkostlegur sé tekið mið af stærð félagsins. Holloway hefur sjálfur vakið athygli í gegnum tíðina fyrir að vera líflegur karakter sem kemur með skemmtileg svör í viðtölum en hjá Blackpool hefur hann líka sýnt að hann er mjög klókur stjóri.

Holloway var sjálfur vinnusamur miðjumaður á sínum tíma en stjóraferill hans hófst hjá Bristol Rovers árið 1996. Holloway var þrjú tímabil spilandi knattspyrnstjóri hjá Bristol og hann stýrði liðinu síðan í tvö ár til viðbótar áður en hann tók við QPR. Eftir fimm ár þar tók Holloway við Plymouth og lofaði að fara með liðið upp í úrvalsdeild tímabilið 2006/2007. Það ætlunarverk tókst þó ekki á fyrsta tímabili og í nóvember árið 2007 hætti Holloway hjá Plymouth og tók við Leicester. Holloway sér mikið eftir þeirri ákvörðun því dvöl hans hjá Leicester breyttst í martröð. Liðið féll úr Championship deildinni og Holloway var rekinn eftir einungis sjö mánuði í starfi. Í maí 2008 leit því út fyrir að Holloway yrði einungis minnst sem stjóra úr neðri deildunum sem grínaðist í viðtölum en ekki fyrir góðan árangur.

Holloway vildi sjálfur ekki bara vera trúður í minningu fólks. Hann tók sér frí frá fótbolta og hugsaði sinn gang. Hann vann í fjölmiðlum og skrifaði ævisögu sína auk þess sem hann eyddi meiri tíma með fjölskyldu sinni. Holloway og eiginkona hans eiga fjögur börn en þar af eru tvö af þeim heyrnarlaus. Holloway hefur hugsað mikið um menntun þeirra í gegnum tíðina og þegar hann stýrði QPR bjó hann áfram í Bristol og keyrði 250 mílur á æfingar til að börnin gætu verið áfram í sama skólanum.

Eftir að hafa tekið sér gott frí var Holloway ráðinn stjóri Blackpool í maí 2009 og í kjölfarið ákvað hann að breyta áherslum sínum sem knattspyrnustjóri. Holloway ákvað að fara að spila 4-3-3 í stað 4-4-2 og hvetja leikmenn sína til að spila boltanum í stað þess að sparka hátt og langt og vona það besta. ,,Ég horfði á hvað ég hafði gert og það var ótti á bakvið allar ákvarðanir sem ég tók, ég vil ekki að leikmenn mínir séu þannig. Ég vil vera frjáls og sækja. Ég vil ekki vinna 1-0 á leiðinlegan hátt,” sagði Holloway sem hefur náð að koma skilaboðum sínum til skila því Blackpool hefur spilað flottan fótbolta síðan hann tók við.

Blackpool skoraði mest allra liða í Championship deildinni á síðasta tímabili og markahæsti leikmaður liðsins var miðjumaðurinn Charlie Adam sem skoraði sextán mörk eftir að hafa komið til félagsins frá Rangers fyrir 500 þúsund pund. Adam varð dýrasti leikmaður Blackpool frá upphafi þegar hann kom til félagsins sumarið 2009 en kaupin hafa borgað sig margfalt upp því Adam hefur leikið frábærlega með Blackpool undanfarin ár og hann átti stóran þátt í að liðið komst upp úr Championship deildinni á síðasta tímabili.

Tímabilið byrjaði reyndar rólega hjá Holloway og félögum í Championship deildinni en með ótrúlegum endaspretti náði Blackpool að krækja í sjötta sætið og komast þar með umspil. Eftir sigur á Nottingham Forest náði Blackpool að tryggja sér sæti í úrvalsdeild með því að leggja Cardiff 3-2 á Wembley þar sem títtnefndur Charlie Adam var meðal annars á skotskónum.

,,Þetta er ótrúlegast augnablik lífs míns,” sagði Holloway í fagnaðarlátunum í kjölfarið áður en hann hóf að undirbúa Blackpool fyrir sitt fyrsta tímabil í efstu deild síðan árið 1971. Holloway gat ekki boðið leikmönnum hærri laun en 10 þúsund pund á viku og það setti stórt strik í reikninginn þegar hann reyndi að styrkja leikmannahópinn síðastliðið sumar. Margir leikmenn úr Championship deildinni vildu ekki fara til Blackpool út af launaþakinu og korteri fyrir mót bárust fréttir þess efnis að Holloway væri orðinn svo pirraður á peningaleysinu að hann ætlaði að hætta með liðið.

Þær fréttir reyndust þó ekki á rökum reistar og þremur dögum fyrir fyrsta leik náði Blackpool loksins að krækja í liðsstyrk þegar að Craig Cathcart, Ludovic Sylvestre, Elliot Grandin, Malaury Martin og Marlon Harewood komu til félagsins. Ekki er hægt að segja að trú manna á Blackpool hafi breyst mikið við þetta enda hafði enginn af þessum leikmönnum spilað í ensku úrvalsdeildinni að undanskildum Harewood. Langflestir spáðu Blackpool botnsætinu fyrir tímabilið og margir bjuggust við að liðið myndi enda eins og Swindon tímabilið 1993/1994 og fá á sig 100 mörk eða eins og Derby sem fékk einungis ellefu stig tímabilið 2007/2008. 4-0 útisigur á Wigan í fyrsta leik sýndi að það þurfti að taka Blackpool alvarlega og áður en félagaskiptaglugginn lokaði náði Holloway að fá fleiri leikmenn eins og DJ Campbell og Luke Varney. Þeir félagar hafa slegið í gegn í vetur, skorað dýrmæt mörk og átt þátt í óvæntu gengi Blackpool.

Samanlagt kaupverð á byrjunarliði Blackpool gegn Manchester United í lok janúar var 3,5 milljónir punda sem er ótrúlegt hjá liði í ensku úrvalsdeildinni. Það sýnir hversu klókur Holloway hefur verið á leikmannamarkaðinum en sjö af þeim ellefu leikmönnum sem byrjuðu leikinn komu til Blackpool eftir að hann tók við sem og báðir varamennirnir sem komu við sögu.

Með þessum leikmannahópi hefur Blackpool náð mögnuðum úrslitum oft á tíðum í vetur og skorað 38 mörk sem er 6. besti árangurinn í deildinni. Það er því alltaf fjör í leikjum Blackpool en vörnin hefur verið að bregðast hjá liðinu að undanförnu og eftir mörkin 5 gegn Everton um síðustuhelgi hefur ekkert lið fengið fleiri mörk á sig í úrvalsdeildinni. Liðið er núna í 15. sæti deildarinnar með 28 stig og margir eru farnir að óttast að Blackpool muni falla þrátt fyrir að hafa gengið vel á fyrri hluta tímabilsins. 3-4 sigrar ættu þó að duga til að halda sætinu í deildinni og eftir að hafa fengið fjóra leikmenn í janúar gæti Blackpool vel náð að landa þeim sigrum.

Þrátt fyrir bakslagið að undanförnu á Holloway skilið mikið hrós fyrir frammistöðu Blackpool í vetur og sama hver niðurstaðan verður í vor er ljóst að þessi litríki karakter kann margt fleira en að svara spurningum fjölmiðlamanna á skemmtilegan hátt.
banner
banner
banner