
Theodór Sveinjónsson þjálfari Þróttar var að vonum svekktur eftir 4-0 tap liðsins gegn Stjörnunni í Garðabænum í Pepsi deild kvenna í kvöld. Hann var ósáttur með spilamennsku sinna stúlkna og sagði þær geta betur.
„Þótt ég ætli ekki að kenna vellinum um, þá sagði ég við stelpurnar eftir leikinn að við gætum tekið það jákvæða úr þessum leik að við gætum byrjað aftur að æfa á grasi,“ sagði Theodór léttur í lund við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Þetta var samt ekki vellinum að kenna hvað við spiluðum illa. Þetta var meira þannig að við værum lélegar frekar en að Stjarnan hafi verið góðar. Mér fannst þær ekki ógna okkur mikið, það komu þrjú mörk úr föstum leikatriðum hjá þeim. Það var meira þannig að við værum ekki að gera það sem við áttum að gera.“
Theodór segist hafa fulla trú á því að liðið geti haldið sæti sínu í deildinni þrátt fyrir að margir utanaðkomandi séu ekki sömu skoðunnar.
„Við getum gert ýmislegt, get ég lofað þér, og við ætlum ekkert að gefa eftir. Þetta er bara einn leikur af mörgum, þetta er maraþon en ekki spretthlaup og svona leikir koma alltaf. Stelpurnar eru fúlar út í sjálfa sig og vita að þær geta gert betur, og þetta er kannski bara metnaðurinn sem við setjum í þetta. Við viljum gera betur. Það er enginn sem hefur trú á okkur en við ætlum ekkert að gefast upp.“
Viðtalið við Theodór má sjá í heild sinni hér að ofan.