Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   mið 01. júní 2011 14:00
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
„Ég bið að heilsa...!"
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÞAÐ er öllum knattspyrnuunnendum ljóst að kynslóðaskipti eru framundan hjá íslenska A-landsliðinu - að drengirnir í ungmennaliðinu, sem eiga framtíðina fyrir sér, eru byrjaðir að banka á dyrnar og á þeim mun landslið Íslands vera byggt á næstu árum. Fyrst í undankeppni heimsmeistarakeppninnar í Brasilíu 2014.

Sjö af leikmönnum ungmennalandsliðsins sem tekur þátt í Evrópukeppni ungmennalandsliða, skipað leikmönnum yngri en 21 árs, í Danmörku 11. til 25. júní, eru í a-landsliðshópnum sem mætir Dönum á Laugardalsvellinum laugardaginn 4. júní - Aron Einar Gunnarsson (22 landsleikir), Rúrik Gíslason (10), Jóhann Berg Guðmundsson (9) Guðmundur Kristjánsson (4), Gylfi Þór Sigurðsson (4), Kolbeinn Sigþórsson (3) og Alfreð Finnbogason (1). Fleiri eiga eftir að bætast í hópinn í sumar.

Mikil stemning er að byggjast upp fyrir EM ungmennalandsliða í Danmörku og hefur Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, valið 23 leikmenn sem halda til Danmerkur.
Það hefur lengi verið draumur knattspyrnumanna á Íslandi að taka þátt í stórmóti og má með sanni segja að draumur 23. leikmanna hafi ræst og íslenska ungmennalandsliðið á eftir að vera í sviðsljósinu næstu vikurnar.

Drengirnir okkar leika í riðli með Hvíta-Rússlandi (11. júní), Sviss (14. júní) og Danmörku (18. júní), en í hinum riðlinum leika landslið Englands, Spánar, Tékklands og Úkraínu.
Tvö efstu liðin í riðlunum komast í undanúrslit.
Það er öruggt! Já, næsta víst, að allir fyrrverandi landsliðsmenn Íslands hefðu viljað standa í sömu sporum og hinir 23 leikmenn sem fara til Danmörku.
Skemmtileg myndskeið hafa verið sýnd í sjónvarpi, þar sem gamlir kappar hafa verið að reyna að koma sér í landsliðshópinn og þar hafa fremstir í flokki verið Pétur Hafliði Marteinsson, Tryggvi Guðmundsson og Arnar Gunnlaugsson, sem allir hefðu átt heima í hópnum ef þeir hefðu haft aldur til - geta þeirra var svo sannarlega til staðar er þeir voru á sama aldri og ungu drengirnir okkar.

Það var skemmtilegt og táknrænt þegar Eyjólfur vísaði tvíburanum Arnari út af æfingu og sagði um leið: "Ég bið að heilsa bróður þínum!"

"Drengirnir okkar"
Já, eins og ég sagði áðan, þá eru kynslóðaskipti framundan hjá íslenska landsliðinu og því margar kveðjustundir er eldri leikmenn hverfa á braut með góðum kveðjum og þakklæti.

Kynslóðaskipti hafa verið áður hjá landsliðinu og þau frægustu urðu 1959 þegar „gulldrengir“ KR, Þórólfur Beck, 19 ára, Ellert B. Schram, 19 ára, og Örn Steinsen, 21 árs, ásamt félögum þeirra úr KR Heimi Guðjónssyni, markverði, Garðari Árnasyni, Sveini Jónssyni og Rúnari Guðmannssyni úr Fram byrjuðu að leika með landsliðinu. Þeir léku með gömlum refum frá Akranesi - eins og sjálfum kónginum Ríkharði Jónssyni. Þá var landsliðið ekki langt frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Róm 1960.

Landsliðið var þá geysilega vinsælt og gekk undir nafninu „Drengirnir okkar“ hjá Íslendingum - eða um 26 árum áður en nafnið „Strákarnir okkar“ festist á landsliðið í handknattleik.
"Drengirnir okkar" er því löngu frátekin setning yfir landsliðið í knattspyrnu og það er rétt hjá knattspyrnuáhugamönnum að viðhalda henni og halda henni á lofti.

Senda sólargeisla frá Danmörku
„Drengirnir okkar“ munu skemmta okkur nú í júní og senda sólargeisla frá Danmörku. Það er við hæfi, því að sumarið hefur látið standa á sér hér á Íslandi að undanförnu og knattspyrnuleikir verið leiknir í kulda og roki - á völlum sem eru ekki nægilega góður.

Í kjölfarið á Evrópuleiknum gegn Dönum á Laugardalsvellinum 4. júní og Evrópukeppni ungmennalandsliða í Danmörku er kominn tími til að gera breytingar á a-landsliðinu - hleypa drengjunum okkar inn með öflugan sólargeisla.

Ég bið að heilsa...
Sigmundur Ó. Steinarson
banner
banner
banner