Hákon Arnar Haraldsson lék fyrstu 80 mínúturnar í dýrmætum sigri Lille í frönsku deildinni.
Hákon og félagar unnu 1-0 gegn Angers þar sem Félix Correia skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Lille er í fjórða sæti með 20 stig eftir 11 umferðir, fjórum stigum á eftir toppliði PSG sem rétt marði OGC Nice í gær.
Goncalo Ramos kom inn af bekknum og skoraði eina mark leiksins í sigri stórveldisins frá París á þeirra eigin heimavelli. Markið lét ekki sjá sig fyrr en á 94. mínútu þrátt fyrir yfirburði heimamanna.
PSG er aðeins með tveggja stiga forystu á Marseille og Lens sem unnu sína leiki um helgina. Angel Gomes gerði eina mark leiksins fyrir Marseille gegn botnliði Auxerre á meðan Odsonne Edouard fyrrum leikmaður Crystal Palace skoraði eitt af þremur mörkum í sigri Lens.
Mónakó og Strasbourg fengu tækifæri til að vera með í toppbaráttunni en töpuðu leikjum sínum um helgina. Mónakó tapaði afar óvænt á heimavelli gegn Paris FC áður en Strasbourg steinlá á útivelli gegn Rennes. Esteban Lepaul setti þrennu fyrir Rennes í sigrinum.
Lyon fær tækifæri til að jafna Marseille og Lens á stigum í öðru sæti þegar liðið heimsækir Brest í kvöld.
Lille 1 - 0 Angers
1-0 Felix Correia ('45+2)
PSG 1 - 0 Nice
1-0 Goncalo Ramos ('94)
Auxerre 0 - 1 Marseille
0-1 Angel Gomes ('30)
Rautt spjald: Ulisses Garcia, Marseille ('65)
Lens 3 - 0 Lorient
Mónakó 0 - 1 Paris
Rennes 4 - 1 Strasbourg
Nantes 0 - 2 Metz
Toulouse 0 - 0 Le Havre
Athugasemdir



