Sveinn Aron Guðjohnsen og Óttar Magnús Karlsson voru í byrjunarliðum í síðustu leikjum Íslendingaliða í dag.
Sveinn Aron lék allan leikinn í 4-0 tapi Sarpsborg gegn Tromsö í efstu deild norska boltans.
Sarpsborg siglir lygnan sjó um miðja deild en Tromsö er í fjórða sæti og í harðri baráttu við Íslendingalið Brann um þriðja sætið. Tromsö er einu stigi á eftir Brann þegar þrjár umferðir eru eftir. Þriðja sætið veitir þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildarinnar og fjórða sætið í forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Sarpsborg á enn möguleika á að koma sér í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið leikur til úrslita í norska bikarnum í byrjun desember. Sarpsborg spilar úrslitaleik við Lilleström, sem er búið að rúlla upp næstefstu deild norska boltans eftir heilt tímabil án þess að tapa leik.
Óttar Magnús lék fyrstu 80 mínúturnar í þriðju efstu deild þegar Renate gerði markalaust jafntefli við Lumezzane. Renate er með 14 stig eftir 12 umferðir.
Tromsö 4 - 0 Sarpsborg
Lumezzane 0 - 0 Renate
Athugasemdir


