Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   þri 14. júní 2011 07:00
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
"Strákar, upp með fjörið!"
Knattspyrnan í 100 ár - á vellinum með Sigmundi Ó. Steinarssyni
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Mynd: Úr safni 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu.
Úr leik Íslands og Hvíta-Rússlands.
Úr leik Íslands og Hvíta-Rússlands.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Til að ná árangri á knattspyrnuvellinum eiga menn aldrei að efast um eigin styrk og getu - knattspyrnumenn mega aldrei hika, gefa eftir eða láta andstæðinginn stjórna ferðinni: Bíða eftir og sjá hvað andstæðingurinn gerir. Það er að sjálfsögðu gott að ganga hægt um gleðinnnar dyr, en þá má þó ekki hika of mikið og ætla sér að bíða og sjá hvað gerist.

Ungmennalandslið Íslands féll í þá gryfja á Evrópumótinu í Danmörku er liðið mætti Hvíta-Rússlandi, að skipta um gír frá fyrri leikjum - þreifa á andstæðingnum og sjá til um framhaldið. Það voru mikil mistök að byrja leikinn ekki með miklum látum og krafti - byrja á leiftursókn og brjóta Hvít-Rússa strax á bak aftur.

Leikmenn Íslands - "Drengirnir okkar" - eru þekktir fyrir að vera sókndjarfir og það hefur verið aðal styrkur þeirra að sækja og skora. Það fengu Þjóðverjar að finna fyrir og síðan Skotar, sem voru hreinlega skotnir á kaf. Sjálfstraustið hefur verið í góðu lagi hjá strákunum, þannig að þeir áttu einfaldlega að fá að leika sinn leik, sem þeir voru þekktir fyrir.

Það var því miður ekki gert og er ástæðan örugglega sú að það átti að þétta og styrkja varnarleikinn, sem talinn var veikleiki íslenska liðsins. Sókn getur þó oft verið besta vörnin, eins og drengirnir okkar höfðu sýnt.
Þess vegna byrjuðu þeir leikinn gegn Hvít-Rússum of hægt og þar með gáfu þeir Hvít-Rússunum, sem eru ekki þekktir fyrir að vera með mikla skotmenn, góðan tíma til að skipuleggja sig inni á vellinum. Þegar boðið er upp á dansleik, þá verður það leiðinlegra að byrja strax á vangadansinum. Það er alltaf skemmtilegra að hefja leikinn með hraða og látum, en dempa síðan hraðan niður eftir aðstæðum.

Spánverjar féllu á því að halda ekki áfram að leika sinn leik eftir að þeir skoruðu mark gegn Englendingum á EM. Eftir markið fóru þeir að leika reitarfótbolta og ætluðu að halda fengnum hlut. Englendingar voru þá í eltingaleik, sem bar árangur - þeir náðu að jafna, 1:1.

Þegar ég var að skrifa bókina 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu - fyrra bindið, sem kom út á dögunum, áttaði ég mig alltaf betur og betur á því að hræðslan við andstæðingana varð liðum dýrkeypt. Það borgaði sig ekki fyrir meistaralið að skipta um gír þegar mikið var í húfi. Það er mikill styrkur að menn og lið leiki sinn leik, en ekki að aðlaga leik sinn að leik andstæðinganna. Við það missa knattspyrnumenn og lið rétta taktinn - og þá getur illa farið.

Ríkharður Jónsson, knattspyrnukappinn kunni frá Akranesi, var afar sókndjarfur leikmaður - og hann vildi alltaf skora strax í leikjum, þannig að það hefði verið gaman ef "Drengirnir okkar" hefðu fengið að fylgja sókndirfsku Rikka eftir í leiknum gegn Hvít-Rússum.

Jakob Sigurðsson, markvörður ÍA á árum áður, sagði: "Ef Ríkharður skoraði snemma, lék enginn betur en hann."
Ríkharður var mikill keppnismaður og hann vildi hafa réttan stíganda í lagi hjá sínum mönnum á vellinum. Ég segi frá andrúmsloftinu í kringum Rikka í bókinni og hvað Grétar Sigurðsson, leikmaður Fram, sagði mér um Rikka, þegar við vorum að ræða um léttleika á knattspyrnuvellinum.

"Okkur gekk mjög vel í leiknum og komumst tveimur mörkum yfir (3:1). Það var þá sem Ríkharður kallaði til sinna manna; "Strákar, upp með fjörið!" Það var eins og við manninn mælt - Skagaliðið fór í gang og Þórður Þórðarson skoraði þrjú mörk fyrir leikhlé, 4:3. Leiknum lauk með öruggum sigri Skagamanna, 6:4."

Þess má geta að Skagamenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitlinn 1958 með þessum sigri.

Ég tel að það sé sterkur leikur fyrir Eyjólf Sverrisson, þjálfara "Drengjanna okkar" að fara í smiðju Ríkharðs fyrir leikinn gegn Sviss í Álaborg, að gefa út dagsskipunina: "Strákar, upp með fjörið!"

Verðlaunapottur
Þeir sem hafa hug á að tryggja sér bókina 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu, fyrra bindi - 384 blaðsíður, geta farið inn á Fésbókina: 100 ára saga Íslandsmótsins - og fengið þar nánari upplýsingar. Þá er hægt að senda inn pöntun með pósti til [email protected].
Boðið er upp á afsláttarverð í júní, sem er kr. 7.900.
Þeir sem kaupa bókina fara um leið í verðlaunapott, sem dregið verður úr þriðjudaginn 2. ágúst 2011. 42 vinningar eru í boði - þar af tveir utanlandsvinningar.

Upp með fjörið!
Sigmundur Ó. Steinarsson
banner
banner