Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 29. mars 2012 12:00
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kunnugleg nöfn á uppleið
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Rickie Lambert og félagar í Southampton hafa fagnað mörgum mörkum í vetur.
Rickie Lambert og félagar í Southampton hafa fagnað mörgum mörkum í vetur.
Mynd: Getty Images
Nigel Adkins stjóri Southampton.
Nigel Adkins stjóri Southampton.
Mynd: Getty Images
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardifff eru að berjast um sæti í umspilinu.
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardifff eru að berjast um sæti í umspilinu.
Mynd: Getty Images
El-Hadji Diouf og Pascal Chimbonda eru í ströggli með Doncaster.
El-Hadji Diouf og Pascal Chimbonda eru í ströggli með Doncaster.
Mynd: Getty Images
Bradley Wright-Phillips hefur skorað grimmt með Charlton.
Bradley Wright-Phillips hefur skorað grimmt með Charlton.
Mynd: Getty Images
Paolo Di Canio stjóri Swindon.
Paolo Di Canio stjóri Swindon.
Mynd: Getty Images
Eftir langt og strangt tímabil er nú tæpur mánuður í að leikmenn í neðri deildunum á Englandi geti sett tærnar upp í loft og skellt sér í sumarfrí. Toppbaráttan í ensku Championship deildinni er æsispennandi en þegar sjö umferðir eru eftir er ljóst að baráttan um tvö örugg sæti í ensku úrvalsdeildinni mun standa á milli þriggja félaga.

Southampton, Reading og West Ham sitja í þremur efstu sætunum en þau hafa öll talsverða reynslu af því að spila í úrvalsdeildinni. Southampton hefur komið skemmtilega á óvart í vetur en liðið er með fimm stiga forskot á toppnum og stefnir hraðbyri á endurkomu í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili eftir mörg mögur ár. Eftir fall úr ensku úrvalsdeildinni árið 2005 tók við ótrúlegt hrun hjá Southampton sem reyndi mikið á félagið. Gareth Bale og Theo Walcott voru báðir seldir þegar þeir voru á meðal efnilegustu leikmanna á Englandi en það gat þó ekki forðað Southampton frá því að lenda í fjárhagsvandræðum.

Sjúkraþjálfarinn setur saman skemmtilegt Southampton lið:
Eftir að hafa bjargað sér naumlega frá falli árið 2008 féll Southampton niður í þriðju efstu deild ári síðar. Tíu stig voru þá dregin af félaginu eftir að það fór í greiðslustöðvun og útlitið hafði sjaldan verið svartara. Sumarið 2009 keypti Svisslendingurinn Markus Liebherr hins vegar Southampton og markmiðið var sett á að endurheimta úrvalsdeildarsæti innan fimm ára. Alan Pardew, núverandi stjóri Newcastle, tók við stjórnartaumunum en hann fékk sparkið í september árið 2010.

Nigel Adkins tók við liðinu í kjölfarið en hann varð knattspyrnuþjálfari Scunthorpe á ótrúlegan hátt árið 2006 eftir að hafa áður unnið sem sjúkraþjálfari hjá félaginu. Eftir að hafa hent sjúkradótinu frá sér náði Adkins góðum árangri með Scunthorpe og hjá Southampton hefur hann sýnt og sannað ágæti sitt sem stjóri ennþá betur. Southampton komst upp úr ensku fyrstu deildinni í fyrra og uppgangur félagsins hefur verið ennþá meiri á þessu tímabili. Adkins hefur búið til skemmtilegt lið sem reynir að spila boltanum á jörðinni og það hefur skilað 72 mörkum í 39 leikjum í vetur. Mörg félög í Championship deildinni í gegnum tíðina hafa spilað einhæfan fótbolta og notað leið eitt með því að sparka boltanum langt fram um leið og tækifæri gefst. Það hefur aftur á móti sýnt sig að félög geta náð góðum árangri með því að spila boltanum eins og Swansea sannaði í fyrra og Southampton í vetur.

Rickie Lambert, sem kom frá Bristol Rovers árið 2009, á stóran þátt í velgengni Southampton í vetur en þessi magnaði framherji hefur skorað 28 mörk á tímabilinu. Adam Lallana hefur einnig verið frábær á kantinum sem og hinn brasilíski Guly Do Prado auk þess sem Jack Cork hefur verið öflugur á miðjunni en hann kom frá Chelsea í fyrrasumar. Í janúar kom framherjinn Billy Sharp einnig til Southampton frá Doncaster og koma hans í liðið hefur styrkt félagið ennþá frekar. Ef ekkert óvænt gerist munu Dýrlingarnir leika aftur á meðal þeirra bestu á næsta tímabili og spennandi verður að sjá hvernig þeim mun vegna þar.

Reading og West Ham berjast um 2. sætið:
Reading og West Ham eru að berjast um annað sætið en þessi félög mætast um helgina í mikilvægum leik. Brian McDermott og lærisveinar hans í Reading hafa þriðja tímabilið í röð komist á skrið eftir áramót og nú gæti það mögulega loksins dugað til að komast í úrvalsdeildina á nýjan leik eftir fjögurra ára hlé. Reading hefur unnið 15 af síðustu 19 leikjum sínum og ef liðið hefði verið með afgerandi markaskorara allt tímabiið væri það líklega í toppsætinu. Jason Roberts hefur skorað fimm mörk síðan hann kom frá Blackburn í janúar og hann á stóran þátt í góðu gengi í síðustu leikjum.

West Ham mun slást við Reading um að komast upp og ljós er að Sam Allardyce og félagar munu ekki gefa tommu eftir í þeirri baráttu. Stuðningsmenn Hamranna hafa lýst yfir óánægju með leikstíl liðsins en Stóri Sam lætur leikmenn sína sparka of mikið hátt og langt að mati stuðningsmannanna sem eru vanari því að sjá gott spil með jörðinni. Allardyce gerði góð kaup með því að fá Kevin Nolan síðastliðið sumar en hann skilar alltaf sínum mörkum og er núna kominn með tíu mörk samtals í deildinni. Það kemur síðan í ljós á næstu vikum hvort að Nolan nái að hjálpa West Ham að endurheimta sæti sitt í úrvaldsdeildinni í fyrstu tilraun.

Íslendingar í minna hlutverki en áður:
Ef liðið kemst ekki beint upp er ljóst að umspil tekur við en ómögulegt er að spá fyrir um hvaða fjögur félög munu leika í umspilinu í ár. Nýliðar Brighton undir stjórn Gus Poyet sitja í fjórða sætinu, Middlesbrough í því fimmta og Birmingham sem féll í fyrra er í sjötta sætinu með jafnmörg stig og Blackpool sem féll einnig úr úrvalsdeildinni síðastliðið vor. Cardiff, Hull, Leeds, Leicester, Derby, Crystal Palace, Watford og jafnvel Ipswich eiga einnig möguleika á einu af fjórum sætunum í umspili en nokkrir sigurleikir í röð eru gulls ígildi á þessu stigi tímabilsins.

Langt er síðan að Íslendingar hafa verið jafnlítið áberandi í Championship deildinni í ár en Aron Einar Gunnarsson er eini leikmaðurinn sem hefur spilað reglulega í vetur. Aron Einar hefur átt fast sæti í liði Cardiff sem er í áttunda sæti, einungis tveimur stigum frá fjórða sætinu. Cardiff hefur hrapað niður töfluna undanfarnar vikur eftir úrslitaleik enska deildabikarsins en ljóst er að Malky Mackay og lærisveinar hans munu þrátt fyrir það gerða harða atlögu að því að komast upp eftir að hafa tapað í umspili um sæti í úrvalsdeildinni í fyrra.

Coventry, Portsmouth og Doncaster í ruglinu:
Aron tók rétta ákvörðun þegar hann yfirgaf herbúðir Coventry síðastliðið sumar en hans gamla félag hefur verið í fallsæti í nánast allan vetur eftir að hafa misst marga sterka leikmenn undanfarin ár. Hermann Hreiðarsson ætlaði að reyna að hjálpa Coventry í fallbaráttunni en ljóst er að hann verður ekki meira með í vetur vegna meiðsla. Fyrrum félagar Hemma í Portsmouth eru í næstneðsta sætinu eftir að tíu stig voru dregin af liðinu á dögunum. Hayden Mullins, Erik Huseklepp og Liam Lawrence eru allir farnir á láni til að lækka launakostnaðinn og hinn ungi Michael Appleton er ekki í öfundsverðri stöðu í að reyna að halda liðinu uppi. Doncaster situr síðan í neðsta sætinu en þrátt fyrir að hafa fengið skrautlega karaktera úr úrvalsdeldinni eins og El-Hadji Diouf og Pascal Chimbonda þá hefur liðið ekki náð að hífa sig upp af fallsvæðinu ennþá.

Charlton að fljúga upp á nýjan leik:
Southampton er ekki eina fyrrum félagið í ensku úrvalsdeildinni sem er á uppleið því í ensku fyrstu deildinni er Charlton með þægilegt átta stiga forskot á toppnum. Umhverfið hjá Charlton er ekki ósvipað og hjá Southamtpon, félagið féll úr úrvalsdeildinni árið 2007 og síðan þá hafa stuðningsmennirnir ekki haft mikla ástæðu til að brosa fyrr en í vetur. Charlton féll niður í þriðju efstu deild árið 2009 en nú eru bjartari tímar á ,,The Valley" og allt bendir til þess að liðið spili í næstefstu deild á nýjan leik á næsta ári. Bradley Wright-Phillips, sonur Ian Wright og hálfbróðir Shaun Wright-Phillips, hefur dregið vagninn hjá Charlton en hann hefur skorað 21 mark á tímabilinu.

Í næstu sætum koma Sheffield Wednesday og Sheffield United en bæði þessi félög eiga sögu í ensku úrvalsdeildinni. Sheffield Wednesday féll úr úrvalsdeildinni árið 2000 og hefur mátt muna sinn fífil fegurri síðan þá. Milan Mandaric eigandi félagsins ákvað óvænt að reka Gary Megson á dögunum og ráða Dave Jones stjóra Cardiff í staðinn en Mandaric taldi Megson ekki vera nægilega góðan kost til að stýra liðinu á lokakaflanum. Hvort það hafi verið rétt metið á eftir að koma í ljós en Jones hætti með Cardiff síðastliðið vor eftir að hafa mistekist að komast í gegnum umspilið með liðið undanfarin ár.

Nágrannarnir í Sheffield United voru síðast í úrvalsdeildnni árið 2007 og þeir stefna á að komast aftur upp í Championship deildina í vor eftir árs fjarveru. Jóhannes Karl Guðjónsson og félagar í Huddersfield eru hins vegar skammt undan en framherjinn Jordan Rhodes hefur farið á kostum með liðinu og skorað 35 mörkum í deildinni í vetur. Jóhannes Karl er sjálfur byrjaður að spila mun meira eftir að Simon Grayson fyrrum stjóri Leeds tók við stjórnartamunum af Lee Clark. Líklegt er að Huddersfield fari í umspil um sæti í fyrstu deildinni og það þýðir að Jóhannes Karl mun þurfa að seinka heimkomu sinni á Akranes fram í júlí en hann ætlar að leika með Skagamönnum í Pepsi-deildinni í sumar.

Di Canio í sviðsljósinu í annarri deildinni:
Í fjórðu efstu deild er hinn litríki Paolo Di Canio búinn að halda uppi fjörinu en lið hans Swindon er með fjögurra stiga forskot á toppnum og á að auki leik til góða. Di Canio komst í fréttirnar strax í ágúst þegar hann slóst við framherja sinn Leon Clarke eftir tap gegn Southampton í deildabikarnum. Di Canio var einnig úrskurðaður í leikbann í janúar fyrir að hlaupa inn á völlinn þegar hann fagnaði sigurmarki í leik gegn Northampton.

Di Canio er ekki eini skrautlegi stjórinn í ensku annarri deildinni því hinn grjótharði Steve Evans hefur einnig vakið athygli með lið Crawley. Evans er af gamla skólanum og kallar ekki allt ömmu sína en hann er reglulega sendur upp í stúku og tímabilið 2008/2009 var hann úrskurðaður í tíu leikja bann. Lið Crawley er í þriðja sætinu, stigi á eftir Torquay en gengi félagsins hefur vakið mikla athygli. Eftir að nýir eigendur tóku við stjórnartaumunum árið 2010 hefur Crawley eytt upphæðum í leikmenn sem önnur félög í svipuðum sporum geta einungis látið sig dreyma um. Það hefur skilað sér því Crawley komst upp úr utandeildinni í fyrra og stefnir nú í átt að fyrstu deildinni en þrjú efstu sætin í annarri deildinni gefa sæti þar. Að auki hefur Crawley vakið athygli í enska bikarnum þar sem félagið mætti Manchester United í 16-liða úrslitum í fyrra og Stoke í ár. Spennandi verður að sjá framhaldið hjá Crawley næstu árin en ljóst er að uppgangi félagsins er ekki lokið.

Staðan í Championship deildinni
Staðan í ensku fyrstu deildinni
Staðan í ensku annarri deildinni
Athugasemdir
banner
banner
banner