,,Sumarfríinu í deildinni í júní er lokið og við erum nokkuð vel stemmdir fyrir kvöldið. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara í erfiðan leik því Framarana sárvantar stig og þeir eru með fínt lið sem getur alltaf slegið í gegn," sagði Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar í Boltanum á X-inu í dag en liðið fær Fram í heimsókn í Pepsi-deildinni í kvöld.
,,Það er enginn leikur auðveldur í þessari deild. Við þurfum að koma fílhraustir til leiks og skora sem fyrst."
Stjörnumenn eru fyrir leikinn í kvöld með þrettán stig í fimmta sæti deildarinnar en með sigri geta Garðbæingar hoppað upp í þriðja sætið og nálgast KR og FH.
,,Við eigum mikið inni. Það eru búin að vera þreytumerki á liðinu það sem er móti en ég vona að við eigum eftir að hressast og spila okkar bestu leiki."
,,KR og FH virðast vera að ná sér virkilega vel á strik og það er hlutverk hjá þessum pakka sem er á eftir að elta þá eins lengi og hægt er og vona að þeir gefi eftir á einhverjum tímapunkti."
,,Þetta eru lið sem eru búin að tróna á toppnum í íslenskum fótbolta síðan um aldamót. Þetta eru lið sem eru búin að vera í Evrópukeppni ár eftir ár og hafa úr mestu að moða. Þess vegna kemur þetta ekki á óvart. Við verðum að reyna að kroppa í bakið á þeim."
Leikmannahópur Stjörnunnar er í góðu standi og lítið er um meiðsli þessa dagana.
,,Gunnar Örn (Jónsson) á við meiðsli að stríða og verður ekki klár alveg strax en aðrir eru nokkuð klárir," sagði Bjarni fyrir leikinn í kvöld.
Athugasemdir