

'Það sem ég er að benda á er að umræðan getur ekki verið þannig að fórnarlambinu sé kennt um einhver brot'
Einar Guðnason, þjálfari Víkings, var í athyglisverðu viðtali á SÝN Sport fyrir leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deildinni í kvöld. Linda Líf Boama var ekki í leikmannahópi Víkings í leiknum og var Einar spurður út í hennar fjarveru. Linda glímir við meiðsli sem hún varð fyrir eftir tæklingu í leiknum gegn Þrótti.
Nafn Lindu rataði í fjölmiðla eftir leik Þróttar og Víkings í síðustu umferð þar sem Sóley María Steinarsdóttir fékk að líta rauða spjaldið fyrir að toga í hár Lindu. Sá leikur fór fram síðasta föstudag og norski dómarinn Marit Skurdal dæmdi leikinn.
Einar kom inn á viðtal við Ólaf Kristjánsson, þjálfara Þróttar, eftir þann leik og umfjöllun Bestu markanna á SÝN Sport þar sem rætt var um leikinn.
Nafn Lindu rataði í fjölmiðla eftir leik Þróttar og Víkings í síðustu umferð þar sem Sóley María Steinarsdóttir fékk að líta rauða spjaldið fyrir að toga í hár Lindu. Sá leikur fór fram síðasta föstudag og norski dómarinn Marit Skurdal dæmdi leikinn.
Einar kom inn á viðtal við Ólaf Kristjánsson, þjálfara Þróttar, eftir þann leik og umfjöllun Bestu markanna á SÝN Sport þar sem rætt var um leikinn.
Hvað sagði Einar?
„Linda... gaman að þú skyldir spyrja að því. Það hefur verið svolítið þannig í sumar að það er tekið fast á henni, enda er hún öflugur leikmaður - menn kannski komast upp með að fara fastar í hana en aðra. Þegar hún spyr dómarann eftir leiki af hverju hún hefði ekki fengið brot þá hefur hún oftar en einu sinni fengið þau svör að hún sé svo sterk stelpa og hún ráði við þetta. Það er kannski ekki það sem þú átt að segja við leikmenn, þó að þeir séu sterkir. Þú átt bara dæma eins fyrir hversu mörg kíló og hversu sterk þú ert."
„Í leiknum á móti Þrótti eru allavega tvö brot á henni sem verðskulda rautt spjald. Annað brotið, sem ekki er gefið rautt á, gerir það að verkum að hún er frá hérna í dag."
„Hitt brotið, þá er rifið í hárið á henni og augljóslega gefið rautt spjald. En það sem kemur í kjölfarið á því er eitthvað sem við þurfum að ræða af því að þá kemur þjálfari Þróttar í viðtal og gefur í skyn að það sé kannski frekar hárgreiðslunni á Lindu að kenna heldur en leikmanninum sem reif í hárið - sem er skrítið."
„Það sem er líka skrítið er að það er alls konar umræða hér í fjölmiðlum um að það sé bara gildur punktur að hárgreiðsla sé einhver afsökun fyrir því að einhver rífi í hár. Kannski þurfa allir að spila með sundhettu, kannski væri þjálfari Þróttar og fleiri ánægð með það," sagði Einar og spurði fréttamann hvað honum fyndist, hvort honum fyndist það gefa andstæðingi rétt á að rífa í hárið ef það er á ákveðinn hátt.
Einar var spurður hvort hann hefði viljað sjá fleiri spjöld fara á loft í leiknum gegn Þrótti.
„Dómarar missa af atvikum og allt það, svona er það bara. Ég er svo sem ekkert bitur yfir því að það hafi ekki verið gefið rautt spjald þegar hún meiddist. Það sem ég er að benda á er að umræðan getur ekki verið þannig að fórnarlambinu sé kennt um einhver brot. Við höfum séð þetta á öðrum stöðum í samfélaginu, maður kennir fórnarlambinu ekki um."
„Það sem þetta hefur leitt af sér er að Linda hefur verið að fá skilaboð á samfélagsmiðum, rasísk skilaboð í kjölfarið á þessu broti og þessari umræðu," sagði Einar á SÝN Sport.
Hvað var sagt eftir leik Þróttar og Víkings?
Óli Kristjáns: Set spurningarmerki við að vera með slegið hár
„Ef það er rifið í hár þá er það hárrétt en ég held að Sóley hafi ekki verið að toga hana niður og ég set spurningarmerki við að vera með slegið hár, hvort það eigi ekki að vera með tagl eða eitthvað svoleiðis. Þetta var slysalegt og ef hún reif í hárið á henni þá er það rautt spjald. Ég er búinn að tala við Sóley og hún var svekkt að hafa verið rekin út af," sagði Óli við Vísi eftir leikinn á föstudag
Umræða í Bestu mörkunum:
„Það er alveg ásetningur í brotinu, hún ætlar að toga í treyjuna og hægja á henni. Ásetningurinn verður annar af því að þetta hár er fyrir. Svo er fínn punktur hjá Óla, ef við tökum allar reglur varðandi búnað og annað, þú mátt ekki klæðast neinu sem er hættulegt, skartgripum eða einhverju sem hangir utan á þér og getur valdið slysahættu. Er þetta punktur hjá Óla? Á að skikka leikmenn til að vera með tagl? Máttu vera með svona margar fléttur lausar? Það má (eins og reglurnar eru) en er þetta punktur til að ræða?" velti Mist Rúnarsdóttir fyrir sér.
„Þetta er fólskubrot þegar það er bara verið að toga í hár, en þegar hár er farið að flækjast fyrir, þá held ég að það verði að fara setja þetta í eitthvað. Ég hugsaði stundum með Sveindísi í sumar þegar hún var að spila á EM í sumar... ég skil bara ekki hvernig það er hægt að spila með allt þetta hár, þetta hlýtur að vera að þungt," velti Helena Ólafsdóttir fyrir sér.
„Ég myndi ekki fara að segja öðrum hvernig hárið þeirra á að vera, en þetta er punktur. Ég hef kastað út á nokkra dómara, spurt og enginn með sama svar. Það hlýtur að mega taka punkt varðandi það hvort það sé slysahætta af því að vera með svona sítt hár laust," sagði Mist.
Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum fyrir ofan.
Sóley María var í dag, á fundi aga- og úrskurðarnefndar, dæmd í tveggja leikja bann fyrir hártogið.
Athugasemdir