
Hörmungar Fylkis halda áfram en liðið tapaði 1-0 gegn Leikni í Lengjudeildinni í kvöld og eru Árbæingar nú í neðsta sæti deildarinnar. Leiknismenn skoruðu sigurmarkið með flautumarki í blálokin.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 0 Fylkir
„Þetta er eins og að lifa Groundhog day aftur og aftur og aftur. Svona er þetta búið að vera," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Fylkis, hundsvekktur eftir leikinn. Hann vitnaði í hina frábæru kvikmynd með Bill Murray sem upplifði alltaf sama daginn aftur og aftur.
„Við vorum með mikla stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og komum okkur í margar góðar stöður í seinni hálfleik. Svo fannst mér Leiknismenn frískari fyrstu 20-30 mínúturnar í seinni án þess að vera skapa sér. Síðasta korterið fáum við góða sénsa til að klára þetta en gerum það ekki."
„Það er erfitt að kyngja þessu en þetta hefur því miður verið sagan hjá Fylki í sumar. Við ætlum að snúa þessu við í þessum fimm síðustu leikjum."
Hefur þetta verið erfiðara verkefni en þú bjóst við þegar þú tókst við liðinu?
„Ég viðurkenni það, ég ætla ekki að ljúga. Ég átti von á því að við gætum gert betur. En þetta er aðeins meiri vinna en ég átti von á. Það er mjög auðvelt að fara að vorkenna sjálfum sér þegar ekkert gengur upp en það hjálpar ekkert. Það er bara æfing á morgun og leikur á sunnudag þar sem við verðum að taka þrjú stig. Ég hef trú á hópnum."
Sjáðu viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir