
"Maður ímyndaði sér þetta alltaf og dreymdi um þessa byrjun að koma heim í sinn klúbb. Ég gæti ekki verið sáttari með daginn," sagði Jón Daði Böðvarsson sem bæði skoraði og lagði upp mark í 3-0 sigri gegn HK en leikurinn var hans fyrsti á Selfossvelli í einhver 13 ár.
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 0 HK
"Þetta var frábær sigur og strákarnir voru geggjaðir í dag."
Mark Jóns kom úr vítaspyrnu. Voru taugarnar þandar svona í ljósi þess að hann var að spila sinn fyrsta leik lengi á Selfossvelli? "Mér leið bara vel á punktinum. Ég var einhvernnveginn aldrei í efa um að ég myndi skora."
Næst ræddum við um spilamennsku liðsins. "Það voru allir frábærir í dag, hlupu fyrir hvorn annan og vörðumst vel. Við vorum agaðir í varnarleiknum og höldum hreinu. Það er svolítið síðan við héldum hreinu. Við vorum í þessu saman og það er það sem þarf," segir Jón og bætir við.
"Þetta er mjög jákvætt. Við þurfum að byggja á þessa frammistöðu og ef við höldum áfram að spila eins og við gerðum í dag þá eru okkur allir vegir færir."
Jón hefur aðeins verið að glíma mið meiðsli eftir heimkomuna og ekki náð að byrja leik ennþá. Hvernig er staðan á honum? "Hún er allt í lagi. Smá meiðsli ennþá. Ég er bara á verkjalyfjum og aðeins að bíta á jaxlinn. Það er svo stutt eftir af mótinu að þetta verður bara skoðað betur eftir tímabil. Þangað til er það bara mind over body," segir Jón Daði að lokum.