Höjlund færist nær Milan - Ramsey á leið til Newcastle - Man City í viðræðum um Donnarumma
   mið 13. ágúst 2025 17:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hrósar Lewis-Skelly en er hreinskilinn: Versta tímabil sem ég hef upplifað
Zinchenko
Zinchenko
Mynd: Brann
Lewis-Skelly.
Lewis-Skelly.
Mynd: EPA
Fyrir ári síðan var Oleksandr Zinchenko í byrjunarliðinu þegar Arsenal spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu gegn Wolves. Hann átti þátt í marki Kai Havertz í leiknum. Hann fékk hlýjar kveðjur, var klappaður af velli þegar honum var skipt út af á 69. mínútu. Þá vissi hann ekki að hann yrði tekinn úr liðinu og byrjaði ekki leik í úrvalsdeildinni fyrr en í desember.

„Ólíkt tímabilinu á undan þá var ekki hægt að kenna meiðslum um. Ég var smávægilega meiddur á kafla en annars heill stærsta hluta tímabilsins," segir Zinchenko í ævisögu sinni sem hann gefur út á morgun. The Athletic fékk að birta brot úr bókinni.

„Ég var ekki hluti af byrjunarliðinu heilt yfir, með fáum undantekningum. Fyrir mig persónulega var þetta klárlega versta tímabil sem ég hef upplifað sem atvinnumaður."

„Leikmaður sem spilar ekkert er ekki neitt. Það er annað þegar líkaminn bregst þér. Það getur gerst. En að fara úr því að vera rótgróinn leikmaður í liðinu yfir í að vera ónotaður varamaður er mun erfiðara að eiga við. Höfnunartilfinningin sem þú finnur þegar stjórinn trúir ekki lengur á þig getur tekið fyllinguna úr þér, jafnvel þótt þú sért seigasti maður jarðar."

„Allir leikmenn byrja á því að spila því þeir elska leikinn. Án hans vantar stóran hluta lífs þíns. Ímyndaðu þér lítinn dreng sem leggur allt það sem hann á í að verða góður í einhverju og þegar hann verður 28 ára þá er ekki lengur not fyrir hann, það eru komnir aðrir sem geta unnið hans verk. Það er ekki góð tilfinning,"
segir Zinchenko.

Riccardo Calafiori og Myles Lewis-Skelly spiluðu flestu mínúturnar í vinstri bakverðinum hjá Arsenal á síðasta tímabili. Zinchenko hrósar Lewis-Skelly. „Hann kom inn og gerði stöðuna að sinni. Hann er einstaklega hæfileikaríkur, mjög góður leikmaður. Það sem hann hefur gert er ótrúlegt í rauninni."

„Ég sagði við hann að hann hefði allt, með hans hæfileikum yrði hann á hæsta stigi næsta áratuginn, eða jafnvel lengur, sagði honum að hann verður einn besti leikmaður heims. Ég hef heyrt af eldri leikmönnum sem láta þá yngri finna fyrir því til að vernda sitt svæði, eitthvað sem maður sér í dýralífsmyndum. Ég mun aldrei grafa undan liðsfélaga mínum. Það er ekki ég."

„Hann spilar sömu stöðu og ég, en ég þarf samt að viðurkenna hans hæfileika, styðja við hann og hjálpa honum að ná sínu besta fram. Hann ýtir mér áfram til að verða betri útgáfa af sjálfum mér og bæta mig frekar. Svona eru kröfurnar á þessu stigi, ef einhver er betri en þú, þá ertu settur til hliðar. Það er enginn annar möguleiki en að setja hausinn upp og horfa áfram,"
segir sá úkraínski.
Athugasemdir
banner