
"Þetta er súrt. Við vorum ekki nógu góðir í heildina en það voru stórar ákvarðanir í þessum leik," segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari HK, eftir 3-0 tap gegn Selfossi í kvöld og heldur áfram.
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 0 HK
"Það er dæmt mark af okkur sem var aldrei rangstaða. Hann er meter frá því að vera rangstæður. Þetta telur. Þetta voru rándýr dómaramistök. Svo virðist vera einfalt að gefa víti á okkur en sleppa því þegar við eigum að fá víti. Það er svekkjandi. Frammistaða okkar var samt ekki nógu sannfærandi."
Hvað vítið varðar er hann að vísa til þess þegar Tumi Þorvarðarson, leikmaður HK, og Daði Kárason, varnarmaður Selfoss, skullu saman inni í teig. "Hann skallar boltann og er skallaður í hausinn. Það á að vera víti."
En getur Hermann tekið eitthvað jákvætt úr frammistöðunni í kvöld? "Kalli (Karl Ágúst Karlsson) og Tolli (Þorvaldur Smári Jónsson) voru geggjaðir í kvöld. Tolli er 17 ára og Kalli er 18 ára. Þeir voru hrikalega sterkir."
Liðið hefur nú unnið og tapað á víxl í seinustu leikjum. Hvað þarf liðið að gera til að ná að tengja saman sigra? "Fá einhvernn almennilegan dómara í þetta," segir Hermann í kaldhæðni og heldur áfram. "Neinei. Það er bara stutt á milli í þessu. Þú skorar eftir horn eða færð á þig mark eftir horn. Eða færð á þig víti eða færð víti sjálfur. Það eru stór atriði og ég vil ekki kenna dómurunum alfarið um. Við hefðum getað gert betur í mörgum atvikum í leiknum."