Höjlund færist nær Milan - Ramsey á leið til Newcastle - Man City í viðræðum um Donnarumma
   mið 13. ágúst 2025 15:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Nýr kafli hafinn hjá Andra - „Ég mun alltaf elska Bologna"
'Mitt markmið er að spila eins marga leiki og mögulegt er og sýna hvað ég get'
'Mitt markmið er að spila eins marga leiki og mögulegt er og sýna hvað ég get'
Mynd: Kasimpasa
Á æfingu með Kasimpasa á dögnum, hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.
Á æfingu með Kasimpasa á dögnum, hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.
Mynd: Kasimpasa
Á að baki tíu A-landsleiki og var síðast í hópnum í nóvember í fyrra.
Á að baki tíu A-landsleiki og var síðast í hópnum í nóvember í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á yfir 50 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Á yfir 50 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék vel hjá Elfsborg og vakti athygli fjölda félaga með öflugri frammistöðu.
Lék vel hjá Elfsborg og vakti athygli fjölda félaga með öflugri frammistöðu.
Mynd: Guðmundur Svansson
Tíundi landsleikurinn kom gegn Hondúras í janúar í fyrra.
Tíundi landsleikurinn kom gegn Hondúras í janúar í fyrra.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Andri Fannar Baldursson var í lok síðasta mánaðar keyptur til tyrkneska félagsins Kasimpasa og þreytti frumraun sína með liðinu um liðna helgi þegar hann spilaði 85 mínútur í 1. umferð tyrknesku deildarinnar.

Með sölunni lauk sex ára kafla Andra hjá ítalska félaginu Bologna. Andri, sem er 23 ára miðjumaður, ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin.

„Þetta er „next level" bara"
„Ég var búinn að heyra frá einhverjum áhuga, Bologna neitaði alltaf en svo á endanum gafst Kasimpasa ekki upp og lögðu allt í að fá mig," segir Andri Fannar.

Hvað heillar þig mest og hvernig seldi félagið þér hugmyndina að koma?

„Aðstaðan hérna er líklega sú besta sem ég hef séð, öll umgjörð og allt í kringum liðið er upp á 10."

„Ég talaði við þjálfarann, Shota Arvaladze, og hann virkaði virkilega vel á mig. Þeir voru líka búnir að fylgjast vel með mér. Á fundinum sýndu þeir mér svo myndband af æfingasvæðinu og ég var hrifinn."


Hvernig líst þér á Tyrkland?

„Mér líst bara mjög vel á þetta allt saman, auðvitað er þetta öðruvísi kúltúr en maður venst því. Ég er að vinna í því að finna mér íbúð, en ekkert stress því hver og einn leikmaður fær hótel svítu inná æfingasvæðinu."

Andri talar um aðstöðuna að hún sé ein sú besta sem hann hafi séð. Hvað er það helsta þar?

„Þetta er „next level" bara. Eins og ég segi þá hafa allir sínar hótelsvítur. Þú ert með fimm stjörnu spa með sánum, gufu, köldum og heitum pottum, hvíldaraðstaða, nuddbekkir og ég veit ekki hvað og hvað. Líkamsræktin er flott, sér sundlaug fyrir endurheimt og svo önnur stór sundlaug. Það er körfuboltavöllur, tennisvöllur og alls konar. Veitingastaðurinn er geggjaður og svo eru grasvellirnir auðvitað geggjaðir. Það er allt gert svo leikmönnum líði eins vel og hægt er."

Markmiðið að sýna hvað hann getur
Hvernig leggst tímabilið í þig, hvað vill Kasimpasa gera í vetur, og hvert er þitt markmið?

„Tímabilið leggst vel í mig, við erum með nokkra nýja leikmenn þannig við þurfum að læra hratt inná hvorn annan, en það eru hellings gæði i þessu liði þannig við stefnum á að enda ofarlega í deildinni. Mitt markmið er að spila eins marga leiki og mögulegt er og sýna hvað ég get."

Andri Fannar var að jafna sig eftir meiðsli fyrri hluta árs. Hann var spurður út í heilsuna.

„Heilsan er góð og skrokkurinn í góðu standi, ég er búinn að æfa mjög vel síðustu mánuði, eina sem hefur vantað er smá leikform en það kemur fljótt."

Uppgjör á tímanum hjá Bologna
Hann var næst spurður út í viðskilnaðinn við Bologna og beðinn um að gera upp tíma sinn hjá ítalska félaginu.

„Tíminn minn hjá Bologna byrjaði ótrúlega vel og allt gerðist mjög hratt. Ég er mjög þakklátur fyrir tímann hjá Bologna. Ég kynntist ótrúlega mikið af góðu fólki, leikmönnum og þjálfurum. Ég spilaði á öllum flottu leikvöngunum og öðlaðist mjög mikla reynslu ungur."

„Hápunkturinn er alltaf fyrsti leikurinn minn í Seria A, gegn Udinese þegar ég var nýlega orðinn 18 ára. Þetta var þvílikur draumur. Ég spilaði í kringum 15 leiki fyrir Bologna sem ég er mjög stoltur af."


Næst tóku við ár af lánsdvölum í Danmörku, Hollandi og Svíþjóð.

„Svo tók við lánstímabil, fyrst FCK í Danmörku þar sem ég meiddist fljótlega en ég æfði allar æfingar og var því alls ekki heill. Mig langaði svo að sýna mig og sanna. Eftir á að hyggja átti ég náttúrulega alltaf að ná mér alveg heilum og byrja þannig, en ég lærði mikið af því."

„Eftir það tímabil var það NEC Nijmegen í Hollandi, það var bara klárt áður en undirbúningstímabilið byrjaði hjá Bologna, þá skildi ég alveg að ég væri ekki að fara beint inn í liðið hjá Bologna. Þar t.d. fundaði ég ekki með þjálfaranum áður en ég fór þangað. Það kom kannski smá í bakið á mer, því hann var bara með sína þrjá miðjumenn alltaf í liðinu sama hvernig liðinu gekk, töpuðum fimm í röð en hann breytti aldrei. Yfirmaður fótboltamála, sem hafði fengið mig, hætti svo stuttu eftir þetta. Ég æfði bara vel og nýtti vel þá leiki þegar ég kom inná eða fékk að byrja."

„Eftir það lán hugsaði ég að núna yrði ég að fara eitthvert þar sem ég myndi spila marga leiki. Þá kom Elfsborg í Svíþjóð upp sem möguleiki og mér leist vel á það. Ég spilaði alla leiki og stóð mig vel. Elfsborg vildi svo nýta ákvæði og kaupa mig, en Bologna kom í veg fyrir það, borgaði Elfsborg í staðinn fyrir að halda mér innan sinna raða, en lánuðu mig svo aftur til þeirra eftir að Elfsborg hafði reynt allt til að fá mig."

„Hjá Elfsborg náði ég að spila mjög góða leiki í Evrópudeildinni og á geggjuðum völlum. Eftir það kviknaði mikill áhugi á mér og margar fyrirspurnir frá félögum. En ég þurfti að fara í aðgerð á ökklanum því ég var að búinn að spila með mikinn verk í ökklanum í langan tíma."

„Ég fór í aðgerð í Bologna og tek endurhæfinguna þar. Svo nýttu þeir sér ákvæði um framlengingu á samning því eg var að renna út. Þeir höfðu alla tíð sagt að þeir hafa bullandi trú á mér og ég væri þeirra leikmaður en voru samt ekki tilbúnir að gefa mér sénsinn þetta árið. Þá fannst mér þetta komið gott, ég var orðinn þreyttur á að vera a láni og vildi komast í félag sem ætti mig og ég vissi að ég yrði líklega lengur en í eitt ár hjá nema maður yrði keyptur, en það er allt annað.

„Ef ég lít til baka og geri þetta upp þá sé ég þetta sem tíma sem ég lærði mjög mikið af, ég hef prófað nokkur lönd og nokkrar deildir sem er skemmtilegt. Ég mun alltaf elska Bologna,"
segir Andri.

Neitaði að fara á láni í fjórða sinn
Hann var spurður nánar út í aðdragandann að félagaskiptunum því hann var orðaður við Frosinone á Ítalíu og félög í Þýskalandi. Það var ljóst að Frosinone var það félag sem Bologna vildi lána Andra til, en hann vildi fara og hafnaði þeim möguleika. Það myndaðist smá núningur, viðskilnaðurinn var ekki auðveldur, en á endanum gaf Bologna eftir og samþykkti að Andri mætti fara til hæstbjóðanda.

„Það var komið mjög langt með Þýskaland, en Bologna stoppaði það. Þeir vildu framlengja samninginn við mig til lengri tíma og senda mig á lán innan Ítalíu. Ég neitaði því nokkrum sinnum og á endanum borgaði Kasimpasa mesta og Bologna samþykkti það tilboð."

Langar aftur í A-landsliðið
Andri á að baki tíu A-landsleiki og yfir 50 leiki fyrir yngri landsliðin. Hann var spurður út í A-landsliðið, hvort hann væri að horfa í að vinna sér sæti í hópnum hjá Arnari Gunnlaugssyni.

„Já, auðvitað langar mig að stimpla mig inn í A-landsliðið aftur. Það er bara undir mér komið að sýna að ég eigi skilið að vera í hópnum," segir Andri Fannar.

Næsti leikur Kasimpasa er gegn Trabzonspor á heimavelli næsta mánudag.
Athugasemdir
banner