Newcastle United er að kaupa enska miðjumanninn Jacob Ramsey frá Aston Villa fyrir 40 milljónir punda en það er Fabrizio Romano sem greinir frá tíðindunum í kvöld.
Deildabikarmeistararnir voru að landa þýska varnarmanninum Malick Thiaw og nú er annar leikmaðurinn á leið inn í hópinn eftir annars arfaslakt sumar á markaðnum.
Það er heldur betur að rætast úr þessum glugga en Romano segir Newcastle vera að ganga frá samkomulagi við Aston Villa um Ramsey og það sé stutt í „Here we go!“ frasann fræga.
Newcastle ætlaði alltaf að finna miðjumann á markaðnum og er hann nú fundinn.
Ramsey er 24 ára gamall og uppalinn hjá Villa. Hann á 167 leiki og 17 mörk á sjö tímabilum sínum með félaginu.
Englendingurinn hefur einu sinni verið valinn leikmaður ársins hjá Villa og besti ungi leikmaðurinn í tvígang.
Gangi skiptin eftir verður hann fimmti leikmaðurinn sem Newcastle fær í glugganum. Allt er komið á fullt í leit að tveimur framherjum. Ef það tekst verður Alexander Isak að öllum líkindum seldur til Liverpool fyrir metfé.
Athugasemdir