Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 24. ágúst 2012 11:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 16. umferð: Ekkert annað að gera en þruma
Leikmaður 16.umferðar - Baldur Sigurðsson (KR)
Baldur í leiknum í gær.
Baldur í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er oft talinn vera besta frammistaðan þegar maður skorar. Þrátt fyrir að ég hafi skorað tvö mörk, sem var bónus, þá var þetta vel spilaður leikur af minni hálfu og af liðinu," sagði Baldur Sigurðsson við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 16.umferðar í Pepsi-deild karla.

KR-ingum hefur gengið vel gegn FH í síðustu leikjum liðanna eftir að hafa oft þurft að lúta í lægra haldi undanfarin ár. ,,Við erum búnir að vinna þá í öllum leikjunum á þessu ári og við unnum þá tvisvar í fyrra þannig að þessi svokallaða grýla ætti að vera kveðinn niður núna."

KR varð bikarmeistari um síðustu helgi en leikmenn liðsins voru komnir aftur niður á jörðina gegn FH í gær.

,,Við fögnuðum og gerðum það vel en menn pössuðu sig og voru mættir á æfingu klukkan 11 morguninn eftir. Menn fóru beint að hugsa um þennan leik og það væri eitthvað skrýtið ef þú værir ekki gíraður upp í þetta. Þetta var eiginlega besti leikurinn til að fá, það er spennufall eftir að hafa unnið bikarinn og það var gott að fá stóran leik strax."

Baldur skoraði tvívegis í leiknum en í síðara markinu þrumaði hann á nærstöngina framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni.

,,Varnarmaðurinn gaf mér færi á þessu skoti með því að fara ekki nær mér og það var ekkert annað að gera en þruma. Ég ætlaði ekkert endilega að þruma uppi, ég ætlaði bara að þruma á markið og hann endaði í þaknetinu."

Baldur var við það að sleppa í gegn strax á 3. mínútu þegar Bjarki Gunnlaugsson braut á honum. Baldur vildi sjá Bjarka fá rauða spjaldið þar.

,,Mér fannst það í leiknum og mér finnst þetta ennþá vera rautt. Ég held að það sé frekar augljóst að boltinn er að fara í átt að markinu og næsta snerting hjá mér er skot. Ég held að þetta flokkist klárlega sem rautt spjald í reglubókinni."

,,Það hafa verið nokkur rauð spjöld í sumar, eins og í Stjarnan-Selfoss þar sem sóknarmaðurinn var að skera línuna mun meira en ég. Markmenn hafa líka verið að fá rautt fyrir að brjóta á mönnum sem eru að fara til hliðar. Ég held að þetta hafi verið mun meira í átt að markinu og eigi að flokkast sem rautt spjald. Þó að hann hafi verið mjög góður í leiknum þá held ég að þetta hafi verið mistök hjá dómaranum."


Baldur sagði eftir leikinn í gær að FH-ingar séu ennþá með fjóra fingur á titlinum. Tvö stig skilja FH og KR að en FH-ingar eiga leik inni.

,,Þetta er smá möguleiki en þeir þekkja það að vera með forystu. Þeir eru með fimm stiga forystu ef þeir klára sinn leik sem þeir gera væntanlega. Við eigum ekki fleiri leiki við þá, því miður. Við getum lítið gert annað en að vinna okkar leiki en þeir eru mjög góðri stöðu," sagði Baldur að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 15. umferðar - Pape Mamadou Faye (Grindavík)
Leikmaður 14. umferðar - Guðmundur Þórarinsson (ÍBV)
Leikmaður 13. umferðar - Bjarni Guðjónsson (KR)
Leikmaður 12. umferðar - Steven Lennon (Fram)
Leikmaður 11. umferðar - Gary Martin (ÍA)
Leikmaður 9. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Leikmaður 7. umferðar - Christian Olsen (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 5. umferðar - Sam Tillen (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Kennie Chopart (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Leikmaður 2. umferðar - Frans Elvarsson (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Athugasemdir
banner
banner