FH-ingar leika í dag gegn SJK frá Finnlandi ytra í undankeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn verður flautaður á klukkan 16:00 á íslenskum tíma.
Vinstri bakvörður FH-inga, Böðvar Böðvarsson var í miðri lögn með liðsfélaga og herbergisfélaga sínum, Kristjáni Flóka Finnbogasyni, þegar Fótbolti.net heyrði í honum hljóðið í hádeginu.
Vinstri bakvörður FH-inga, Böðvar Böðvarsson var í miðri lögn með liðsfélaga og herbergisfélaga sínum, Kristjáni Flóka Finnbogasyni, þegar Fótbolti.net heyrði í honum hljóðið í hádeginu.
„Aðstæðurnar hér eru ljómandi góðar. Við erum aðeins fyrir utan Helsinki og völlurinn er flottur," sagði Böðvar en leikurinn fer fram í Helsinki sem er 360 km frá borginni, Seinäjoki þar sem SJK spilar yfirleitt heimaleiki sína.
„Þeir eru að uppfæra grasið á vellinum sínum og þeir neyddust því að spila leikinn í Helsinki."
„Við spiluðum við þetta lið á Spáni á undirbúningstímabilinu og þá vantaði nokkra leikmenn hjá okkur. Þar áttum við í fullu tré við þetta lið SJK. Ég tel okkur vera betra aðilinn í þessu einvígi. Ég myndi segja að þetta lið væri miðlungslið í Pepsi-deildinni."
„Við leggjum leikinn upp með að liggja til baka og halda skipulagi og reyna stjórna tempó-inu í leiknum. Við teljum okkur hafa farið ágætlega yfir styrkleik og veikleika liðsins. Við reynum síðan að beita skyndisóknum," sagði Böddi sem segir að jafntefli yrðu fín úrslit.
„Það yrði gott veganesti fyrir heimaleikinn að fara inn í þann leik með jafntefli á bakinu. Það væri líka gott að ná að skora í kvöld."
Böðvari líkar vel lífið í Finnlandi en sér sig samt ekki fyrir sér spila í finnsku deildinni í framtíðinni.
„Finnska lífið er að fara mjög vel í mig, það er glampandi sól og 25° hiti. Þetta verður ekki betra. Ég býst hinsvegar ekki við því að myndi spila hér. Helsinki er örugglega topp klúbbur en ég held að það væri alveg eins gott að vera bara heima," sagði Böðvar að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir