Garðar Gunnlaugsson - ÍA
„Maður tekur yfirleitt ekki mikið mark á þessum spám en vissulega er áhugavert að sjá hvar þið haldið að við stöndum," segir sóknarmaðurinn Garðar Gunnlaugsson, lykilmaður ÍA. Skagamönnum er spáð tíunda sæti Pepsi-deildarinnar þetta árið.
Það hafa verið mjög fáar breytingar á leikmannahópi Skagamanna í vetur.
„Mestmegnis er þetta byggt á heimastrákum sem er klárlega sú leið sem heimamenn vilja fara og heimamenn vilja sjá. Ungu strákarnir sem spiluðu stórt hlutverk í fyrra eru orðnir árinu eldri og ég hef trú á því að þeir hafi tekið skref í rétta átt."
„Mótið er með öðruvísi sniði núna og hraðmótið í raun lengra, það eru sjö deildarleikir strax í maí. Byrjunin skiptir gríðarlega miklu máli," segir Garðar sem skoraði níu mörk í Pepsi-deildinni í fyrra og stefnir á að skora meira í ár.
„Ég er með háleitar kröfur á sjálfan mig og tel að maður nái ekki árangri öðruvísi. Ég stefni á að vera á toppnum í markaskorun. Ég hef allan minn feril stefnt á að skora fleiri mörk en árið áður."
Garðar hefur verið að glíma við meiðsli síðustu vikur en hann verður klár í slaginn þegar Skagamenn mæta ÍBV í Vestmannaeyjum 1. maí.
„Ég er að byrja að æfa á fullu núna og verð klár þegar flautan gellur. Vellirnir eru í mun betra standi en í fyrra og byrjunin á mótinu verður áhugaverð," segir Garðar Gunnlaugsson.
Athugasemdir