Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fim 01. mars 2018 20:40
Magnús Már Einarsson
Yfirlýsing frá Víkingi: Skora á Óla Jó að biðjast afsökunar
Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla sem Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, lét falla í þættinum Návígi á Fótbolta.net í dag.

Ólafur sagði að samið hafi verið um úrslitin í leik Víkings R. og Völsungs í 1. deildinni árið 2013. Víkingar unnu 16-0 og þessi stórsigur gerði það að verkum að liðið komst upp úr deild með betri markatölu en Haukar. Ólafur var þá þjálfari Haukaliðsins.

Víkingur hefur kvartað til KSÍ vegna ummælana og vill að aganefnd sambandsins taki málið fyrir. Í yfirlýsingunni skorar Víkingur á Ólaf að biðjast afsökunar á ummælunum.

Yfirlýsing frá Víkingi R.
Yfirlýsing Knattspyrnufélagsins Víkings til fjölmiðla, vegna ummæla Ólafs Jóhannessonar, knattspyrnuþjálfara Vals í útvarpsviðtali á Fótbolti.net í dag.
Af gefnu tilefni vegna alvarlegra aðdróttana Ólafs Jóhannessonar þjálfara Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, í útvarpsviðtali, í garð Knattspyrnufélagsins Víkings og Völsungs á Húsavík um hagræðingu úrslita árið 2013 vill Knattspyrnufélagið Víkingur taka eftirfarandi fram:

Umræddum ummælum Ólafs Jóhannessonar er alfarið vísað á bug sem rakalausum með öllu. Um er að ræða alvarlegar aðdróttanir í garð félaganna beggja, sem ekki er nokkur einasti fótur fyrir. Virðast ummælin sett fram í þeim eina tilgangi að kasta rýrð á ímynd félaganna og það starf sem þar er unnið, skaða félögin og orðspor þeirra, með því að saka þau um óheiðarleika fullkomlega að ósekju.

Knattspyrnufélagið Víkingur áréttar að aðdróttanir af þessum toga kunna að varða þann sem hefur þær uppi ábyrgð að lögum, en spjótum sínum beinir Ólafur Jóhannesson, með ummælum sínum að félögunum sjálfum, þeim sem þar starfa, stjórnarmönnum og leikmönnum. Verður ekki við það unað, enda með öllu óásættanlegt. Forsvarsmenn íþróttafélaga, þ.m.t. þjálfarar, einkum og sér í lagi þeir sem teljast í framvarðarsveit knattspyrnuhreyfingarinnar, verða í hvívetna að gæta orða sinna, á vettvangi knattspyrnunnar líkt og annarsstaðar, og gæta þess eins og allir aðrir að veitast ekki að öðrum íþróttafélögum og þeim sem þar starfa, með ásökunum sem engan rétt eiga á sér.

Knattspyrnufélagið Víkingur gerir ráð fyrir að Ólafur Jóhannesson sjái að sér og skorar á hann að biðjast afsökunar opinberlega vegna ummælanna, svo sem minnstir eftirmálar verði af þeim eða skaði.

Knattspyrnufélagið Víkingur hefur ákveðið að vísa ummælum þessum til stjórnar KSÍ og aganefndar og gerir ráð fyrir að brugðist verði við þeim með viðhlítandi hætti innan knattspyrnusambandsins.

Knattspyrnufélagið Víkingur
Björn Einarsson
Formaður Aðalstjórnar

Sjá einnig:
Óli Jó: Samið um úrslit hjá Víkingi R. og Völsungi
Hrannar Björn: Kjaftæði að við höfum verið með veðmálasvindl
Víkingur kvartar til KSÍ vegna ummæla Óla Jó

Smelltu hér til að hlusta á Óla Jó í Návígi
Athugasemdir
banner
banner