Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   fim 16. ágúst 2018 18:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Vísir.is | RÚV 
„Var fullur og bað leikmenn að koma upp á herbergi til sín"
Þóra Björg spilaði 108 landsleiki fyrir Íslands hönd.
Þóra Björg spilaði 108 landsleiki fyrir Íslands hönd.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalandsliðið er í dauðafæri að komast á HM í fyrsta sinn.
Kvennalandsliðið er í dauðafæri að komast á HM í fyrsta sinn.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Þóra Björg Helgadóttir, sem varði mark A-landsliðs kvenna frá 1998 til 2014, hélt ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um jafnrétti í íþróttum í dag, en ráðstefnan er haldin í Háskóla Reykjavíkur. Ráðstefnan ber heitið „Gender and Sport".

Á ráðstefnunni sagði Þóra frá því hvernig staðan var í kvennalandsliðinu þegar hún var að byrja þar. Frásögnin er ótrúleg.

Þóra hóf landsliðsferil sinn þegar hún var 16 ára en þegar hún var að byrja var ráðinn nýr landsliðsþjálfari kvenna. Æfingarnar undir hans stjórn voru ekki boðlegar fyrir kvennalandsliðið í fótbolta. Þréttán ára sonur þjálfarans fékk að æfa með liðinu.

Þegar fyrsti leikurinn var á dagskrá virtist þjálfarinn ekki vita nöfn allra leikmanna liðsins eða stöður þeirra á vellinum.

Kornið sem fyllti svo mælinn var þegar, í einni landsliðsferðinni, að þjálfarinn var mikið drukkinn og bað leikmenn að koma upp á herbergi með sér. Eftir það neituðu leikmenn að spila fyrir þennan þjálfara.

KSÍ tók ekki vel á þessum málum á þessum tíma og segir í frétt Vísis að formaður KSÍ, Eggert Magnússon, hafi sagt við leikmennina: „Þið ráðið engu" og barið í borðið.

Sá leikmaður sem fór hæst fyrir liðinu í baráttunni spilaði aldrei fyrir íslenska landsliðið aftur.

„Viðbrögð okkar leikmannanna eru eiginlega jafn slæm. Engin okkar steig fram og sagði neitt. Við vorum of hræddar um að við myndum lenda á svarta lista sambandsins. Kannski kom Metoo byltingin of seint. Ég vil trúa því að ef þetta gerðist í dag þá myndu leikmenn ekki vera of hræddir," sagði Þóra að því er kemur fram á Vísi.

Þóra nefndi engin nöfn í ræðu sinni en þjálfarinn sem um ræðir er talinn vera Þórður Lárusson. Þórður hætti störfum sem landsliðsþjálfari árið 2000.

Á réttri leið hjá KSÍ
Miðað við frásögn Þóru var staðan hjá KSÍ hreint út sagt skelfileg fyrir nokkrum árum þegar kom að kvennalandsliðinu. Staðan er klárlega orðin betri í dag og til dæmis um það þá jafnaði KSÍ árangurstengdar greiðslur leikmanna A-landsliða karla og kvenna í undankeppnum stórmóta fyrr á þessu ári.

„Þetta er náttúrulega langt frá því að vera orðið jafnt en mér finnst hafa orðið virkilega jákvæð breyting til dæmis hjá Knattspyrnusambandinu undir nýrri stjórn og hafa tekið risastór skref, það var ekki einu sinni að taka lítil skref með því að jafna bónusana og undirbúningurinn fyrir EM, þetta voru risa skref. Kannski núna í fyrsta skipti hef ég virkilega trú á því að núna muni hlutirnir breytast hægt og bítandi án þess að einhver þurfi að berjast svona mikið fyrir þeim," sagði Þóra við RÚV.

Íslenska kvennalandsliðið leikur í byrjun næsta mánaðar tvo mikilvæga leiki á Laugardalsvelli, gegn Þýskalandi og Tékklandi. Ef Ísland nær í góð úrslit úr þessum leikjum kemst liðið í fyrsta sinn í sögunni á Heimsmeistaramót.
Athugasemdir
banner
banner