Sænski miðvörðurinn Pontus Lindgren er líklega að fara semja við sænska úrvalsdeildarfélagið Värnamo eftir að hafa verið á mála hjá KR síðustu tvö ár. Värnamo Nyheder greinir frá.
Pontus er 23 ára gamall og var á mála hjá Sylvia í C-deildinni í Svíþjóð áður en hann hélt í ævintýri til Íslands og samdi við KR-inga.
Árið 2022 spilaði hann 16 leiki í Bestu deildinni með KR en hann var síðan lánaður í ÍA fyrir síðustu leiktíð.
Eftir tímabilið varð hann samningslaus en síðustu daga hefur hann æft með Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni. Hann fór í æfingaferð með liðinu til Spánar og leist þjálfaranum vel á hann.
„Þetta er leikmaður sem var bara að koma frá Íslandi. Við skoðuðum hann í æfingaferðinni, en ég og Vedran (annar af þjálfurum liðsins) höfum báðir þjálfað hann hjá Sylvia og Norrköping. Við munum núna meta stöðuna,“ sagði Anes Mravac, þjálfari liðsins, við Värnamo Nyheder.
„Það sem ég sé er frábæran og virkilega snöggan varnarmann. Hann hefur bætt sig verulega með bolta síðan ég sá hann síðast og virkar sem alvöru spilar með mikinn hraða,“ sagði hann ennfremur.
Athugasemdir