mán 01. júní 2020 14:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Stefán um Jibril og Mikkel: Koma með nýja vídd í okkar leik
Mikkel Qvist er hávaxinn varnarmaður sem getur kastað langt.
Mikkel Qvist er hávaxinn varnarmaður sem getur kastað langt.
Mynd: KA
Jibril og Óli Stefán. Jibril er sterkur sóknarmaður.
Jibril og Óli Stefán. Jibril er sterkur sóknarmaður.
Mynd: KA
KA hefur bætt við sig tveimur leikmönnum sem koma úr danska boltanum. Annars vegar er það varnarmaðurinn Mikkel Qvist sem er reynslumikill varnarmaður sem kemur frá Horsens á láni. Hins vegar er það svo nígeríski sóknarmaðurinn Jibril Abubakar sem kemur á láni frá Midtjylland, toppliði dönsku úrvalsdeildarinnar.

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA-manna, er ánægður með það hvernig þessir tveir leikmenn hafa smollið inn í hópinn. „Þeir hafa komið ótrúlega vel inn í þetta hjá okkur," segir Óli Stefán við Fótbolta.net.

„Báðir þessir leikmenn eru sterkir og koma með nýja vídd inn í okkar leik. Við þurfum að bregðast við því að hafa misst broddinn af okkar sóknarleik því Elfar Árni meiðist. Það hjálpar okkur að hafa ákveðna kosti í Jibril. Mikkel er gæi sem er með tæplega 100 leiki í efstu deild í Danmörku. Við erum ánægðir með þá."

Jibril er aðeins tvítugur og þykir hann mjög spennandi leikmaður. Óli segir að hann sé hugsaður í breiddina hjá KA.

„Jibril kemur til okkar úr akademíu Midtjylland sem samstarfsverkefni á milli félagana. Hann er hugsaður inn í breiddina hjá okkur, hann er ekki endilega hugsaður í að leiða sóknarleik KA. Hann kemur vissulega með möguleika inn í okkar leik sem hjálpar til við að búa til mörk, hann er tveir metrar á hæð og mjög sterkur target-senter."

Mikkel er hávaxinn varnarmaður sem er þekktur fyrir að geta tekið rosalega löng innköst. Það er vopn sem KA hefur í vopnabúri sínu.

„Við notum þau vopn sem við höfum í okkar vopnabúri, og þetta er eitt af því. Við höfum verið að teikna möguleika upp í kringum þetta. Við erum með líkamlega sterkt lið, stærri leikmenn, og við getum gert betur en við gerðum í fyrra í föstum leikatriðum."

Mikkel er ekki eini leikmaðurinn sem getur kastað langt hjá KA. „Ég neita því ekki að það er gott að hafa þetta. Við erum með annan leikmann, Ívar Örn Árnason, sem getur kastað mjög langt líka. Við viljum hafa Mikkel inn í því hann er yfir tveir metrar. Við höfum úr ýmsu að moða og það er kúnstin að taka saman þá styrkleika sem við búum yfir og láta þá skína."


Athugasemdir
banner
banner
banner