mán 01. ágúst 2022 16:00
Ívan Guðjón Baldursson
Koulibaly fyrstur til að fá treyju númer 26 eftir John Terry
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Kalidou Koulibaly nýr leikmaður Chelsea hefur fengið leyfi frá John Terry til að nota gamla treyjunúmerið hans, númer 26.


Koulibaly byrjaði að nota treyju númer 26 þegar hann gekk í raðir Napoli sumarið 2014. Hann var keyptur til Chelsea á dögunum og ákvað að taka upp myndband af því þegar hann spurði Terry um að nota gamla treyjunúmerið hans.

„John, ég vildi spyrja þig að dálitlu. Eins og þú veist þá spilaði ég með treyju númer 26 hjá Napoli og það hefur enginn tekið treyju númer 26 hjá Chelsea síðan þú yfirgafst félagið," sagði Koulibaly. „Ég veit ekki hvort það megi aldrei nota númerið aftur eða hvort enginn hafi beðið um það og þess vegna vildi ég spyrja hvort það væri mögulegt fyrir mig að fá það?"

John Terry útskýrði fyrir Koulibaly að þetta væri mjög mikilvægt treyjunúmer fyrir sig og að hann væri þakklátur fyrir símtalið.

„Það er ekkert vandamál fyrir mig ef þú tekur númerið. Það er mér sönn ánægja að gefa þér númerið og ég óska þér góðs gengis því ég veit að þú ert líka númer 26."

Koulibaly þakkaði innilega fyrir sig og sagðist ætla að gera sitt besta til að halda uppi heiðri treyju númer 26. 

Til gamans má geta að treyja númer 25 sem Gianfranco Zola notaði hefur einnig legið ósnert frá dvöl Ítalans í London.


Athugasemdir
banner