„Það er nú svolítið síðan að maður fór að hætta að leyfa þessum United leikjum að hafa áhrif á það hvernig manni líður," sagði Tryggvi Páll Tryggvason, stuðningsmaður Manchester United, í viðtali í Enski boltinn hlaðvarpinu í gær.
Rætt var mikið um 0-3 tap Man Utd gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni síðasta sunnudag. Erik ten Hag virðist vera að lenda á endastöð með þetta lið.
Rætt var mikið um 0-3 tap Man Utd gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni síðasta sunnudag. Erik ten Hag virðist vera að lenda á endastöð með þetta lið.
„Frammistaðan var náttúrulega bara mjög léleg. Maður sá það frá byrjun. Þeir náðu ekki að senda saman tvær, þrjár sendingar. Fyrsta markið kemur á annarri eða þriðju mínútu og það kemur eftir að hvorki Rashford né Garnacho ákveða að taka boltann. Það var ábyrgðarleysi hjá öllum. Það má deila um rauða spjaldið en ellefu United menn hefðu aldrei unnið miðað við það hvernig þeir byrjuðu leikinn," sagði Tryggvi.
„Tottenham spilar mjög fallegan og skemmtilegan bolta. Hann er mjög ákveðinn, þeir pressa hátt upp og taka áhættur. United vill gera það líka en þeir gera það svo illa. Þeir eru lélegir að pressa, þeir eru ágætir í uppspili en þegar þeir eru komnir að markinu virðist allt fara í kerfi. Þetta virkar miklu betur drillað hjá Tottenham. Maður veltir fyrir sér hvað er verið að gera á æfingasvæðinu hjá United. Ég held að þetta sé ágætis fótboltalið þarna einhvers staðar en þetta er mjög vont í alla staði."
Hjólin fljót að fara af
Það hefur verið erfitt að horfa á United í byrjun tímabils.
„Þetta er alls ekki nógu gott. Ég myndi segja að þeir hafi kannski átt einn og hálfan góðan leik á þessu tímabili. Þeir voru mjög góðir í fyrri hálfleik gegn Crystal Palace. Og svo Barnsley í deildabikarnum. Þetta er ekki mikið meira en það," segir Tryggvi.
„Mér fannst kaupin í sumar alveg fín, ágætur grunnur að einhverju góðu. Það sem maður hafði alltaf áhyggjur af var þetta dæmi í sumar þegar Ten Hag var tekinn aftur í atvinnuviðtal. Það benti allt til þess í vor að hann yrði rekinn en svo tóku þeir U-beygju á því. Þá vissi maður að þetta yrði rosalega erfitt fyrir hann því hann þurfti að ná fljúgandi byrjun í deildinni. Hann byrjaði í hálfgerðum mínus því hann þurfti að fara í atvinnuviðtal fyrir sitt eigið starf. Maður var þokkalega bjartsýnn en maður vissi að ef þetta færi ekki vel af stað, þá myndu hjólin fara fljótt af vagninum sem maður telur að sé að fara að gerast fljótlega."
Hjólin eru að fara af vagninum. „Manni fannst það líka á síðasta tímabili. Gengið eftir áramót var grín. Maður horfði á hvert liðið á fætur öðru taka 30 skot eða meira gegn okkur. Manni fannst planið vera að hrynja en svo reddar hann sér með þessum bikarúrslitaleik. Maður er kominn aftur í sama gamla farið. Hann er svo þrjóskur og vill alltaf halda sama planið. Það virkaði vel hjá Ajax þar sem hann var með langbesta liðið í deildinni. Hann virðist vera að reyna að spila sama bolta en úrvalsdeildin er miklu betri. Þetta er ekki að virka," segir Tryggvi.
„Það glittir stundum í eitthvað mjög gott en þeir ná aldrei að halda því. Ég held að hann sé ekki nægilega góður í samskiptum. Hann virðist virka þver og þannig. Þetta er að verða búið hjá honum, elsku kallinum."
Er kominn tími á að láta hann fara?
„Manni finnst eins og það sé óumflýjanlegt. Ég sé ekki hvernig hann ætlar að grafa sig upp úr þessu. Það sem hélt honum líka í starfi í sumar var að það var ekki neinn augljós kandídat til að taka við. Ég veit svo sem ekkert hvernig staðan er núna. Mér líst hvorki á Southgate né Potter í starfið. Fyrir mér er Tuchel eini maðurinn sem kemur til greina. Ég gæti alveg sætt mig við Ruud van Nistelrooy sem millibilsástand. Kannski gæti hann líka tekið Solskjær á þetta því hann byrjaði sterkt," sagði Tryggvi en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir