Salah aftur til Roma - Bruno Fernandes á förum? - Sterling til West Ham - Goretzka í enskt stórlið?
   fös 02. janúar 2026 23:20
Ívan Guðjón Baldursson
Iraola er ekki að hugsa um Chelsea
Mynd: EPA
Andoni Iraola þjálfari Bournemouth er meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við stjórastarfið hjá Chelsea eftir að Enzo Maresca hætti á nýársdag.

Liam Rosenior er talinn líklegastur til að fá starfið en Iraola hefur verið nefndur sem einn af næstu mönnum á óskalista stjórnenda félagsins.

„Mér líður mjög vel hérna í Bournemouth og vinnan mín snýst ekki um að hugsa út í svona hluti, vinnan mín snýst um að ná árangri á fótboltavellinum. Ég er upptekinn af því að reyna að snúa slöku gengi við, ég er ekki að hugsa um neina orðróma," svaraði Iraola þegar hann var spurður út í lausa starfið hjá Chelsea.

Bournemouth byrjaði úrvalsdeildartímabilið furðu vel eftir að hafa selt lykilmenn frá sér síðasta sumar, en gengið hefur dalað verulega. Liðið er ekki búið að vinna fótboltaleik síðan í október og hefur aðeins náð í 5 stig af síðustu 30 mögulegum - fimm jafntefli og fimm töp í síðustu tíu leikjum.

„Við erum ennþá með þokkalegt magn af stigum eftir góða byrjun á tímabilinu en það er margt sem við þurfum að bæta, það er mikið af vandamálum. Ég er bara einbeittur að því að laga þessi vandamál, engu öðru."

Bournemouth tekur á móti toppliði Arsenal á morgun eftir að hafa sýnt flotta frammistöðu í 2-2 jafntefli gegn Chelsea í vikunni.

Bournemouth er í 15. sæti úrvalsdeildarinnar með 23 stig eftir 19 umferðir, níu stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Iraola stýrði liðinu til níunda sætis á síðustu leiktíð með 56 stig úr 38 leikjum.
Athugasemdir
banner
banner