Salah aftur til Roma - Bruno Fernandes á förum? - Sterling til West Ham - Goretzka í enskt stórlið?
   fös 02. janúar 2026 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Vísir 
Kári varar Arnar við: Hætt við því að við finnum ekki okkar besta lið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári og Ragnar Sigurðsson mynduðu besta miðvarðapar í sögu landsliðsins.
Kári og Ragnar Sigurðsson mynduðu besta miðvarðapar í sögu landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári og Arnar unnu saman hjá Víkingi.
Kári og Arnar unnu saman hjá Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland komst í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi 2016.
Ísland komst í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þann 30. desember var frétt með fyrirsögninni: Arnar vill læra af mis­tökum gullkynslóðarinnar og gera lands­liðið sjálfbærara birt á Vísi. Fréttin var unnin upp úr útvarpsviðtali við landsliðsþjálfarann Arnar Gunnlaugsson á Bylgjunni fyrr um daginn.

Arnar sagði í viðtalinu að hann vildi gera landsliðið sjálfbærara en það hefur verið, með því að stækka kjarnann. Gullkynslóðin fór með landsliðinu á EM og HM á árunum 2016 og 2018. Þegar best gekk ráku menn upp stór augu ef það var gerð breyting á byrjunarliðinu og hvað þá fleiri en ein.

Arnar tók við landsliðinu fyrir tæpu ári síðan og notaði 28 leikmenn í leikjunum tíu á síðasta ári.

„Við erum minnugir þess sem gullaldarliðið gerði, 2016-18 var kannski 14-15 manna kjarni, þannig að við erum að stækka hópinn verulega," sagði Arnar.

„Ég held að það sé bara nauðsynlegt [að spila á mörgum leikmönnum]. Ég er búinn að horfa mikið á gullaldarliðið síðustu vikur, sem hefur verið hrikalega gaman. Allir þessir leikir á EM og HM, gaman að sjá hvernig við vorum að spila og reyna að læra eitthvað af því sem við gerðum vel. En það sem sló mig, eftir að hafa horft á þessa leiki, var að þessi tími var mjög stuttur. Hann var bara í nokkur ár, sem þýddi það að við vorum ekki nægilega tilbúnir þegar gullkynslóðin hvarf af vettvangi. Næsta áskorun fyrir okkur er að gera liðið sjálfbærara," sagði Arnar og líkti því við Víkingana sem héldu áfram að vinna eftir að Sölvi Geir Ottesen tók við af Arnari.

„Þannig sé ég drauminn fyrir mér með íslenska landsliðið, að það verði ekki tjaldað til einnar nætur, heldur verðum við með þannig lið, hóp og leikstíl að liðið geti haldið áfram að gera góða hluti næstu áratugina."

Arnar sagði einnig mikilvægt að binda vonir sínar ekki við ákveðna leikmenn heldur leikstíl. Það skipti ekki öllu máli hverjir eru í liðinu ef liðið er gott.

„Við erum ekki með allra bestu leikmennina, sem segir manni að umræðan um hvort Jói eða Siggi eigi að spila, á kannski ekki alveg rétt á sér. Það skiptir minna máli hjá okkur," sagði Arnar og benti á að landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson hefði misst af síðustu undankeppni vegna meiðsla og þeir Andri Lucas Guðjohnsen og Albert Guðmundsson hefðu ekki náð að spila báða leikina gegn Frökkum.

„Umræðan á frekar að snúast um hvernig við getum breikkað hópinn, þannig að þeir séu til taks þegar okkar bestu leikmenn meiðast."

Hann segir samanburðinn við gullaldartímann ekki eiga rétt á sér, liðið í dag sé öðruvísi mannað og eigi að spila í samræmi við það og nefnir að enginn Aron Einar Gunnarsson sé að koma upp í dag, en leikmaður eins og t.d. Ísak Bergmann Jóhannesson búi yfir öðrum kostum.

Landsliðsþjálfarinn er ekki að búa til leikmenn
Fótbolti.net ræddi við fyrrum landsliðsmanninn Kára Árnason um ummæli Arnars. Kári var lykilmaður í gullaldarliði Íslands.

„Það vill nú þannig til að við erum landslið, ekki félagslið. Þú getur ekki keypt þér hópinn og landsliðsþjálfarinn er ekki í því að búa til leikmenn. Hann tekur við leikmönnum í örfáar vikur á ári, þannig það er svolítið erfitt að stækka hópinn ef það eru ekki leikmenn í boði."

„Það var alveg hellingur af leikmönnum prófaðir fram og til baka á þessum tíma, en það vildi bara þannig til að það voru sirka 15-16 sem stóðu sig og þess vegna var þeim treyst fyrir þessu, en öðrum ekki. Það var alveg reynt að gefa mönnum tækifæri, en í þessum heimi sem snýst eingöngu um úrslit þá er ekkert hægt - og Arnar þekkir það betur en nokkur maður - að gefa mönnum tækifæri endalaust. Ef þeir standa sig ekki og tapa fyrir þér leikjum, þá ertu bara með ákveðið marga sem þú treystir."

„Auðvitað væri tilvalið að fjölga leikmönnum sem eru klárir í að spila. Það væri æðislegt ef honum tekst það. Þetta eru orðnir fleiri leikir í hverjum glugga, verða fjórir næsta haust og þá gefur það auga leið að þú getur ekki spilað bara á ellefu mönnum. En þetta er hins vegar áfram takmarkað magn leikja og ef það á endalaust að vera gefa mönnum séns er hætt við því að við finnum ekki okkar besta lið."

„Á þeim tíma vorum við t.d. með fleiri varnarmenn sem við treystum, en ef aðalmennirnir voru klárir þá spiluðu þeir. Ég myndi halda að aðalatriðið sé að ná árangri, íslenska landsliðið getur aldrei orðið fullkomið lið. Við komumst á EM á sínum tíma og keyrðum þetta á örfáum leikmönnum þannig lagað. Við verðum aldrei Evrópu- eða heimsmeistarar, ég myndi segja að það hafi sennilega verið eins langt og íslenskt landsliðið mun ná. Hefðum við unnið Frakka ef við hefðum haft fleiri leikmenn? Ég efa það, en það hefði hugsanlega litið betur út."

„Ég held að aðalmálið eigi að vera að ná úrslitum aftur,"
segir Kári.

Viðtalið við Arnar má nálgast í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner