Newcastle United hefur átt erfitt uppdráttar á leikmannamarkaðinum í sumar og virðist í þokkabót vera að missa sinn verðmætasta leikmann, Alexander Isak.
Newcastle hefur reynt við ýmsa leikmenn í sumarglugganum án þess þó að takast að ganga frá kaupum á sínum helstu skotmörkum. Anthony Elanga og Aaron Ramsdale eru þó komnir inn eftir að mistókst að krækja í menn á borð við Joao Pedro, Hugo Ekitike og James Trafford.
Eddie Howe þjálfari segir að félagið ætli ekki að láta deigan síga, heldur sé mikilvægt að halda áfram að leita að nýjum leikmönnum til að styrkja gæðin í hópnum.
„Við erum að leita að bestu leikmönnum sem við getum mögulega fengið. Við erum ekki að einblína á einhverja ákveðna stöðu á vellinum, við viljum bæta hópinn eins og við getum," segir Howe.
„Við viljum alltaf gæði framyfir magn og mér líður eins og félagið sé búið að standa sig vel í síðustu gluggum. Það er ekkert leyndarmál að við höfum misst af ýmsum skotmörkum í sumar en við erum ennþá samkeppnishæfir á markaðinum og að vinna að því að fá virkilega gæðamikla leikmenn inn."
Newcastle er í æfingaferð um Asíu þessa dagana og er Will Osula eini framherjinn í hópnum eftir að Alexander Isak fór heim og Callum Wilson yfirgaf félagið á frjálsri sölu.
Félagið er að reyna að kaupa Yoane Wissa úr röðum Brentford en þær tilraunir ganga erfiðlega.
Newcastle gengur talsvert betur í tilraun sinni til að kaupa Benjamin Sesko úr röðum RB Leipzig þar sem félögin eru nálægt því að finna samkomulag um kaupverð.
Það eru mörg félög áhugasöm um Sesko og því þarf leikmaðurinn sjálfur að velja næsta áfangastað.
Athugasemdir