lau 02. ágúst 2025 12:53
Brynjar Ingi Erluson
Howe um Isak: Flókin og alls ekki ákjósanleg staða
Alexander Isak
Alexander Isak
Mynd: EPA
Eddie Howe
Eddie Howe
Mynd: EPA
„Í raun og veru veit ég það í gegnum fjölmiðla hvar hann er staddur. Frá mínu sjónarhorni er mjög erfitt að ræða það eitthvað nánar, en staðan er langt í frá ákjósanleg og í raun mjög flókin,“ sagði Eddie Howe, stjóri Newcastle United, um stöðuna á Alexander Isak, framherja liðsins, en það er enn möguleiki á að hann fari frá félaginu í glugganum.

Isak hefur síðustu daga æft einn á æfingasvæði Real Sociedad á Spáni, þar sem hann lék áður en hann gekk í raðir Newcastle fyrir þremur árum.

Hann neitaði að fara með Newcastle í æfingaferð þar sem hann reynir að fá í gegn félagaskipti til Liverpool.

Liverpool lagði fram 110 milljóna punda tilboð í gær sem Newcastle hafnaði umsvifalaust. Samkvæmt enskum miðlum er Liverpool tilbúið að hætta að eltast við Isak sem væri nokkuð óvænt eftir að hafa unnið mikla vinnu bak við tjöldin til þess að fá hann.

„Ég fékk að vita af tilboði sem kom í gær og að því tilboði hafi verið hafnað. Fólkið á Englandi er að kljást við þetta, en ég veit ekkert hvað mun gerast næst. Við munum halda áfram að styðja við Alex í einu og öllu, og ósk mín er að við munum sjá hann í Newcastle-treyju á næstu leiktíð,“ sagði Howe við enska fjölmiðla á blaðamannafundi í Seoul í Suður-Kóreu í morgun.

Samkvæmt Craig Hope hjá Daily Mail finna stjórnarmenn og þjálfarar til með Isak sem þeir telja að hafi fengið slæm ráð frá föruneyti sínu og þá er einnig sögð vera ánægja með framferði Liverpool í kringum viðræðurnar.

Howe var spurður út í það en vildi lítið tjá sig um hvernig önnur félög hátta hlutunum.

„Þetta er erfitt því maður veit ekki hvað mun gerast næst. Við getum aðeins tekist á við raunveruleikann og hann er sá að við fengum fyrsta tilboð frá Liverpool og að því var hafnað. Sjáum síðan hvað gerist.“

„Svo get ég aðeins talað um okkar sjónarhorn og framferði þegar það kemur að því að koma leikmönnum í ójafnvægi og allt sem tengist því. Við reynum að gera hlutina rétt. Það er alltaf mjög flókið að kaupa leikmenn og við reynum að gera það sem við teljum rétt. Ég get ekki talað um önnur félög,“
sagði Howe.

Ornstein segir frá því í dag að Isak sé mættur aftur til Englands og muni hefja æfingar með liðinu á næstu dögum.
Athugasemdir