Slóvenski framherjinn Benjamin Sesko og hollenski sóknartengiliðurinn Xavi Simons eru ekki í hópnum hjá RB Leipzig sem mætir Atalanta í æfingaleik klukkan 13:00 í dag. Báðir eru á leið frá félaginu.
Simons, sem er 22 ára gamall, hefur verið í viðræðum við Chelsea og fer að styttast í samkomulag á meðan jafnaldri hans, Sesko, mun velja á milli Manchester United og Newcastle.
Samkvæmt heimildum Fabrizio Romano þá æfði Simons ekki með Leipzig í gær og er hann þá búinn að taka nafn Leipzig úr prófíl sínum á Instagram.
Hann verður annar Hollendingurinn sem Chelsea kaupir á nokkrum dögum, en félagið er einnig að ganga frá kaupum á varnarmanninum Jorrel Hato frá Ajax.
Sesko hefur einnig fengið tíma til þess að ganga frá félagaskiptum sínum. David Ornstein hjá Athletic segir Newcastle hafa lagt fram 70 milljóna punda tilboð, en að Sesko eigi enn eftir að gera upp hug sinn hvort hann fari til Man Utd eða Newcastle.
Því hefur verið haldið fram í enskum miðlum að Sesko vilji heldur fara til Man Utd en Newcastle. Slóvenski miðillinn Delo sagði hins vegar frá því í nótt að Newcastle hafi tekist að sannfæra Sesko um að koma og er tilboðið ágætis staðfesting á því.
Athugasemdir