lau 02. ágúst 2025 10:19
Brynjar Ingi Erluson
Slóvenskur blaðamaður segir Sesko á leið til Newcastle - 70 milljóna punda tilboð á borðinu
Mynd: EPA
Newcastle United hefur lagt fram 70 milljóna punda tilboð í Benjamin Sesko, framherja RB Leipzig í Þýskalandi. Þetta segja David Ornstein hjá Athletic og slóvenski blaðamaðurinn Jernej Suhadolnik.

Samkvæmt Suhadolnik þá hefur Sesko ákveðið að velja Newcastle fram yfir Manchester United.

Suhadolnik vinnur fyrir slóvenska blaðið Delo sem er talinn afar traustur miðill þar í landi.

Ornstein bætir við að Newcastle hafi lagt fram tilboð upp á 70 milljónir punda í Sesko, en segir hins vegar að framherjinn hafi ekki enn tekið ákvörðun um framtíð sína.

Takist Newcastle að ganga frá kaupunum á Sesko mun það hjálpa Liverpool sem er að eltast við Alexander Isak. Newcastle mun ekki selja Isak nema það fá toppframherja í staðinn.

Newcastle hafnaði 110 milljóna punda tilboði Liverpool í Isak í gær og var sagt að Englandsmeistararnir væru tilbúnir að hætta að reyna við Isak, en það gæti allt saman breyst á næstu dögum.

Sesko er 22 ára gamall og skoraði 21 mark í öllum keppnum með Leipzig á síðustu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner