lau 02. nóvember 2019 13:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Svíþjóð: Kolbeinn þakkaði traustið - Djurgarden kom til baka
Stigið dugði Djurgarden til að verða meistari
Gummi Tóta fékk að líta rauða spjaldið gegn verðandi meisturum.
Gummi Tóta fékk að líta rauða spjaldið gegn verðandi meisturum.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Lokaumferðin fór fram í sænsku Allsvenskan í dag. Þrjú lið gátu orðið meistari og voru líkurnar með Malmö í leikhléi þegar Djurgarden var 2-0 undir á útivelli gegn Norrköping. Hammarby vonaðist eftir að bæði lið myndu misstíga sig.

Djurgarden kom til baka í seinni hálfleiknum og jafnaði leikinn. Jafnteflið dugði til sigurs í deildinni þar sem liðið hafði þriggja stiga forskot fyrir lokaumferðina. Guðmundur Þórarinsson fékk að líta tvö gul spjöld í leiknum og þar með rautt. Seinna gula spjaldið fékk hann í stöðunni 2-2.

Malmö gjörsigraði Örebro á útivelli, 0-5, Arnór Ingvi spilaði fyrstu 75. mínútur leiksins og skoraði annað mark liðsins. Aron Jóhannsson sat allan tímann á varamannabekk Hammarby sem lagði Häcken, 4-1.

Kolbeinn Sigþórsson var í byrjunarliði AIK sem lagði Sundsvall, 2-1. Kolbeinn var handtekinn í vikunni en byrjaði leikinn þrátt fyrir það. Kolbeinn þakkaði traustið og kom AIK í 1-0 með marki á 69. mínútu. Kolbeinn var svo tekinn af velli undir lokin í stöðunni 1-1.

Daníel Hafsteinsson var þá ónotaður varamaður hjá Helsingborg þegar liðið tapaði á heimavelli gegn Elfsborg.
Athugasemdir
banner