Mikið hefur verið rætt um vandamál innan herbúða Real Madrid þar sem einhverjar stjörnur liðsins virðast ekki sérlega sáttar með stjórnunarhætti Xabi Alonso nýráðins þjálfara.
Flestir leikmenn liðsins virðast þó mjög ánægðir með hann og svöruðu Eduardo Camavinga og Federico Valverde spurningum eftir 3-4 sigur liðsins gegn Olympiakos í Meistaradeildinni í miðri viku.
„Vandamál í búningsklefanum? Þetta er bara bull í fjölmiðlum. Ég hef aldrei séð klefann vera jafn samheldinn áður, við viljum gera allt í okkar valdi til að hjálpa stjóranum að vinna fótboltaleiki," sagði Camavinga eftir sigurinn í Grikklandi og tók Valverde undir.
„Eftir þessa viku þar sem margt hefur verið sagt um okkur þá höfum við aldrei verið samheldnari. Ég er persónulega að vinna hörðum höndum að því að komast aftur í mitt besta form eftir meiðslin. Þjálfarinn styður þétt við bakið á mér og gerir allt í sínu valdi til að hjálpa mér að þroskast sem leikmaður," sagði Valverde.
Alonso talaði einnig við fjölmiðla að leikslokum og hrósaði stórstjörnunni Kylian Mbappé í hástert enda skoraði Frakkinn öll mörk Madrídinga í sigrinum, fjögur talsins.
„Að undanskildum mörkunum sem hann skorar þá elska ég það sem Mbappé gerir fyrir okkur sem lið. Persónuleikinn hans og jákvæðu áhrifin sem hann hefur á samherja sína, þetta eru mjög mikilvægir hlutir fyrir okkur sem liðsheild. Hann er ótrúlega mikilvægur fyrir okkur."
Mbappé er búinn að skora 22 mörk og gefa 3 stoðsendingar í 18 leikjum á fyrri hluta tímabils.
Athugasemdir




