Juventus segir nei við Rashford - Stærstu félögin á Englandi vilja Musiala - Olmo gæti farið frítt frá Barcelona
   mán 02. desember 2019 10:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Meðvitað gáleysi knattspyrnumanna
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Aron Gauti Laxdal.
Aron Gauti Laxdal.
Mynd: Úr einkasafni
Sergio Ramos.
Sergio Ramos.
Mynd: Getty Images
Denis Cheryshev.
Denis Cheryshev.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola.
Pep Guardiola.
Mynd: Getty Images
Diego Maradona.
Diego Maradona.
Mynd: Getty Images
Af einhverjum ástæðum virðast flestir halda að knattspyrna sé laus við lyfjamisnotkunina sem plagar svo gott sem allar aðrar íþróttir. Sumir ganga meira að segja svo langt að halda því fram að knattspyrnumenn hagnist minna á lyfjamisnotkun en aðrir íþróttamenn, vegna þess að íþróttin snúist meira um tæknilega og taktíska færni en líkamlega eiginleika. Þessar staðhæfingar eru auðvitað bæði einfeldningslegar og kolrangar. EPO, HGH og testosterone bæta kannski ekki knattspyrnugetu leikmannanna, en þau auka úthald og styrk, koma í veg fyrir vöðvatap á langri leiktíð, stytta endurheimt og flýta endurhæfingu. Knattspyrna er vinsælasta íþrótt í heimi, og það eina sem skilur á milli fátæktar og ríkidóms fyrir fjölmarga sem stunda sportið; hvatinn til að svindla er þar af leiðandi gríðarlegur. Eins og VAR atvik undanfarinna mánaða hafa undirstrikað er knattspyrna leikur sentímetra; og prómillur skilja oft á milli þeirra sem sigra og tapa. Það gefur auga leið að leikmenn sem þreytast sjaldnar en aðrir, missa aldrei úr leik og meiðast sjaldan eru gífurlega verðmætir, bæði íþróttalega og fjárhagslega (14% allra launagreiðslna í Ensku úrvalsdeildinni fara til meiddra leikmanna).

Margir benda til þess að hlutfallslega fáir knattspyrnumenn verði uppvísir af lyfjamisnotkun, en það snýst meira um skort á vilja til að ná í skottið á brotlegu leikmönnunum en mögulegt sakleysi þeirra. Það er nógu erfitt að koma upp um svindlara þegar allra leiða er leitað til að ná þeim, en í umhverfi eins og knattspyrnuhreyfingin býður uppá, þar sem lyfjapróf eru hlutallslega fá, þau oft tilkynnt fyrirfram, blóðprufur eru undantekningin (einungis 3,8 % af öllum prufum) og brot á tilkynningarskyldu eru talin vera minniháttar brot eru allar yfirlýsingar um ábyrgð innantómar. Eins og Dick Pound, fyrrverandi yfirmadur WADA, hefur látið hafa eftir sér fjölmörgum sinnum virtist FIFA ekki hafa neinn áhuga á að koma í veg fyrir lyfjamisnotkun í hans tíð. Þeir héldu því einfaldlega fram að knattspyrna væri hrein íþrótt og þess vegna þyrfti ekkert að viðhafast frekar. FIFA bendir á sínar eigin tölur sem sýna að 0,25% af þeim 37.118 sýnum sem rannsökuð voru árið 2017 hafi verið jákvæð (þar eru kannabis og önnur efni sem eru ekki frammistöðubætandi meðtalin), en þær tölur eru um það bil eins áreiðanlegar og allt annað sem kemur frá þeirri stofnun. Á meðan hægt er að fela misnotkunina, líkurnar á því að þú sért tekinn í próf eru litlar og rannsóknaraðferðirnar eru takmarkaðar er trúverðugleiki kerfisins enginn. Það má heldur ekki gleyma læknisfræðilegum undanþágum (e. theraputic use exemptions) sem eru að færast í aukana og eru vinsæl leið til að sviga framhja reglunum. Þær gefa leikmönnum undanþágu til að nota ólögleg frammistöðubætandi lyf svo lengi sem læknir skrifi uppá að þess sé þörf. Hvort þörfin sé raunveruleg er oftar en ekki umdeilanlegt. Sem dæmi notuðust 29 leikmenn í Ensku úrvalsdeildinni viá áðurnefnda undanþágu á undangenginni leiktíð.

Rannsóknargeta eftirlitsstofnana heldur sjaldan í við þróunina á markaðnum og því er mikilvægt að halda vel utan um öll sýni sem tekin hafa verið svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir seinna. Sem dæmi hafa meira en 100 íþróttamenn sem sem gáfu sýni á Ólympíuleikunum 2008 og 2012 fallið við endur-rannsókn með nýrri tækni. Árið 2015 endur-rannsakaði UEFA sýni 900 atvinnumanna sem allir höfðu staðist upphaflegu lyfjaprófin. Með nýjum aðferðum féllu hins vegar 68 þeirra; og það var bara verið að leita að sterum. Sýnin voru nafnlaus og eftirmálarnir voru því engir.

Eftirfarandi atvik eru lýsandi fyrir nálgun knattspyrnuhreyfingarinnar í bardaganum gegn lyfjamisnotkun:

Upp komst um umfangsmikla kerfisbundna lyfjamisnotkun Juventus á árunum 1994-1998, en þeir urðu uppvísir af því að nota EPO og önnur ólögleg frammistöðubætandi efni á sama tíma og þeir náðu frábærum árangri bæði heima fyrir og í Evrópu. Árið 2004 voru læknir félagsins og lyfjafræðingurinn sem varð þeim úti um efnin dæmdir fyrir sín hlutverk í ferlinu, en félagið sjálft og leikmennirnir hlutu engar refsingar. Athygli vekur að Zenedine Zidane (sem sjálfur var bendlaður við aðrar ólöglegar frammistöðubætandi meðferðir seinna á ferlinum) sem var stjarna Juventus á þessum tíma réði þáverandi líkamlegan þjálfara Juventus til Real Madríd þegar hann tók við þeim.

Læknarnir Luis Garcia Del Moral og Eufemiano Fuentes, sem eru þekktastir sem lyfjaráðgjafar Lance Armstrong, voru einnig bendlaðir við stærstu knattspyrnufélög Spánar. Þeir voru titlaðir sem opinberir ráðgjafar hjá meðal annars Barcelona og Valencia, og unnu á óreglulegum grundvelli fyrir Real Madrid, Sevilla og Real Betis áður en upp komst um starfshætti þeirra. Í réttarhöldum Fuentes bauðst hann til þess að nefna á nafn alla þá íþróttamenn sem hann hafði unnið með. Fuentes sagði sjálfur að Spánverjar myndu missa bæði heims- og evrópumeistaratitlana sína ef hann hefði fengið að tjá sig. Uppljóstrarar í málinu vitnuðu einnig að fjölmargir þekktir knattspyrnumenn hefðu nýtt sér þjónustu læknisins. Fuentes var hins vegar meinað að nefna íþróttamenn úr öðrum greinum en hjólreiðum á nafn, og öll sönnunargögnin sem snéru ekki að þeirri íþrótt voru í kjölfarið send til förgunar að skipan dómarans (þar á meðal 211 blóðpokar merktir með skammstöfunum).

Eftir úrslitaleik meistaradeildarinnar árið 2017 féll Sergio Ramos á lyfjaprófi. Hann hafði tekið dexamethasone, stekt bólgueyðandi steralyf sem er á bannlista WADA vegna þess að það eykur einbeitingu og örvir skynjun. Ramos hafði ekki fengið læknisfræðilega undanþágu fyrir dexamethasone leikinn, hann hafði hins vegar fengið læknisfræðilega undanþágu fyirr Celestone Chronodose, öðru steralyfi sem er einnig á bannlistanum. Í stað þess að setja málið í opinbert ferli, hafði UEFA samband við Ramos og lækninn. Læknirinn sagðist hafa ruglast og beðið um undanþágu fyrir vitlausu lyfi. Hvort sem þær upplýsingar eigi við rök að styðjast eða er erfitt að meta, en reglurnar eru mjög skírar; leikmaðurinn ber fulla ábyrgð og honum ber að refsa fyrir slík brot (eins og Norska gönguskíðastjarnan Therese Johaug getur vitnað um, en hún fékk 18 mánaða bann fyrir að nota varasalva sem innihélt ólöglegt steralyf sem hún fékk frá lækninum sínum). UEFA tók málsvörn Ramos gilda og athafðist ekkert frekar í málinu.

Faðir Denis Cheryshev, stjörnu Rússlands á HM 2018, viðurkenndi að sonur sinn hefði verið sprautaður með HGH vaxtarhormónum til að flýta endurhæfingu fyrir mótið. Cheryshev neitaði og ekkert var athafst frekar í málinu. Fyrir mótið höfðu einnig tölvupóstar frá Rússneska knattspyrnusambandinu, sem voru gerðir opinberir í football leaks lekanum, gefið til kynna að tveir rússneskir landsliðsmenn væru að misnota frammistöðubætandi lyf. Rannsóknarstofan í Moskvu sem framkvæmdi prófin neitaði að gefa FIFA niðurstöðurnar vegna persónuverndar. FIFA lagði málið niður og eftirmálarnir voru engir.

Og svo er það Pep Guardiola, en hann fær alveg sérstaka athygli vegna síendurtekna brota til lengri tíma. Sem leikmaður Brescia féll hann tvisvar á lyfjaprófi fyrir Nandrolone notkun. Læknir Pep á þeim tíma, Ramon Segura, vann með öðrum þekktum knattspyrnumönnum sem voru staðnir að því að misnota sama lyf. Þegar Guardiola tók við Barcelona, tók hann Segura með sér. Fljótlega fóru að vakna grunsemdir um lyfjamistnokun og félagið fékk sektir fyrir að brjóta tilkynningarskildu ítrekað. Blaðamaðurinn Graham Hunter upplýsti seinna að Xavi hafi notað HGH til að flýta fyrir endurhæfingu erftir erfið meiðsli. Samkvæmt honum var það ekki óalgengt verklag hjá félaginu. Frægt var þegar Guardiola lenti uppá kant við lækni Bayern þegar hann þjálfaði þar, en þær erjur snérust í grunninn um það að leikmenn Bayern voru skikkaðir til að fara til Hans-Wilhelm Müller-Wohlfhart, læknis Bayern til margra ára, og fengu ekki að fara til Segura. Guardiola var ósáttur með hversu lengi leikmenn Bayern voru að ná sér af meiðslum sínum, Segura gæti neflilega komið þeim aftur á völlinn á þrisvar sinnum styttri tíma en Hans-Wilhelm var fær um. Guardiola kærði sig lítið um það að Hans-Wilhelm var almennt talinn vera einn færasti íþróttalæknir heims. Gaurdiola hefur verið samur við sig eftir að hann tók við Machester City, en hann sendir alla sína leikmenn í meðferð til Segura, þar sem þeir ná merkilega fljótum bata. Á sama tíma hefur City verið sektað fyrir ítrekuð brot á tilkynningarskildunni.

Viðhorf knattspsyrnuheimsins til ólöglegrar lyfjamisnotkunar endurspeglast eflaust best í því hvernig arfleifð Diego Maradona hefur varla beðið nokkra hnekki þrátt fyrir notkun hans á fjölda efna á við efedrín, norephedrine, pseudoephedrine og norpseudoephedrine til að bæta frammistöðu sína á vellinum. Hann er ennþá fyrirferðarmikill í umræðunni um bestu leikmenn allra tíma, og lyfjamisnotkunin er aldrei notuð gegn honum.

Eftirtaldir nafntoguðu knattspyrnumenn hafa annað hvort orðið uppvísir að lyfjamisnotkun á meðan á ferlinum stóð, eða viðurkennt lyfjamisnotkun að honum loknum: Franz Beckenbauer, Zico, Maradona, Deco, Edgar Davids, Jaap Stam, Darijo Srna, Frank de Boer, Christophe Dugarry, Pep Guardiola, Fernando Couto, Abel Xavier, Kolo Toure, Samir Nasri, Sergio Ramos, Gary Neville og Chris Waddle.

Leikmenn eftirtaldra liða hafa viðurkennt eða gefið í skyn að lyfjamisnotkun hafi verið stunduð með kerfisbundnum hætti, til lengri eða skemmri tíma: Ajax 1967, Feyenoord 1980, Marseille 1989-1993, Real Sociedad 2001-2007, Alsírska landslið 1982, Þýska landsliðið 1987, Argentínska landsliðið 1994 og Enska landliðið 1998.

“Það er svo augljóst að knattspyrnumenn misnota frammistöðubætandi lyf að það væri hreinlega heimskulegt að neita því”
Marcel Desailly.

Heimildir koma meðal annars frá AS, Calcio, Der Spiegel, FIFA, Goal, The Guardian, The Independent, The New York Times, Sporting intelligence, The Telegraph og Vice.

Höfundur er doktorsnemi í íþróttafræði við háskólann í Stafangri.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner