Kalimuendo fann sig ekki í ensku úrvalsdeildinni og ætlar að reyna fyrir sér í Þýskalandi. Eintracht Frankfurt hefur verið afar heppið með franska framherja á síðustu árum og fékk mikinn pening fyrir sölur á Hugo Ekitike og Randal Kolo Muani.
Sky í Þýskalandi greinir frá því að franski framherjinn Arnaud Kalimuendo muni ganga til liðs við Eintracht Frankfurt á lánssamningi sem gildir út tímabilið.
Kalimuendo er 23 ára gamall og er samningsbundinn Nottingham Forest til 2030 eftir að enska úrvaldeildarfélagið keypti hann fyrir um 30 milljónir evra síðasta sumar.
Framherjinn hefur ekki staðist væntingar hjá félaginu og er aðeins búinn að koma við sögu í átta úrvalsdeildarleikjum. Hann er þó með tvö mörk í fjórum leikjum í Evrópudeildinni.
Sky segir að Kalimuendo fari í læknisskoðun eftir helgi og talar um kaupmöguleika sem fylgir með lánssamningnum. Frankfurt getur fest kaup á leikmanninum fyrir 25 milljónir evra.
Áður en hann gekk í raðir Forest var Kalimuendo lykilmaður í liði Rennes, þar sem hann skoraði 40 mörk í 112 leikjum.
Kalimuendo er alinn upp hjá PSG og lék á láni hjá Lens í tvö ár áður en hann skipti yfir til Rennes sumarið 2022, þegar hann var tvítugur.
Hann var algjör lykilmaður upp yngri landslið Frakklands og skoraði 11 mörk í 33 leikjum með U21 liðinu. Hann var í U23 landsliði Frakka sem endaði í öðru sæti á Ólympíuleikunum 2024 og hefur í heildina spilað 58 landsleiki á ferlinum, þó aldrei með A-landsliðinu. Í þeim skoraði hann 24 mörk.
Athugasemdir




