Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
   fös 03. maí 2013 11:30
Arnór Sveinn Aðalsteinsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Úr ofþjálfun yfir í Grænmeti
Arnór Sveinn Aðalsteinsson
Arnór Sveinn Aðalsteinsson
watermark Arnór Sveinn Aðalsteinsson.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
watermark
Mynd:
Arnór Sveinn Aðalsteinsson, leikmaður Hönefoss og íslenska landsliðsins, ritaði neðangreindan pistil á heimasíðu sína arnoradalsteins.is. Pistillinn hér að neðan er birt með góðfúslegu leyfi Arnórs.Vegna fjölda áskoranna lét ég verða af því að henda upp minni eigin vefsíðu. Aðallega var það kærastan mín hún Sandra Sif sem hvatti mig og vildi að ég deildi því með heiminum hvað ég væri að borða.

Semsagt í desember 2012 breytti ég mataræði mínu yfir í “plant based”. Með öðrum orðum gerðist ég grænmetisæta. Ég hef í gegnum tíðina haft mikla fordóma gagnvart grænmetisætum og eiginlega bara gagnvart grænmeti yfir höfuð. Ég leit á þetta fólk sem veiklulega hippa sem voru vannærðir og borðuðu laufblöð í öll mál. En sannleikurinn er sá að ég vissi ekki betur, ég hafði ekki kynnt mér málið að neinu leiti og fordómarnir stöfuðu af þekkingarleysi og skorti á upplýsingum (sem er yfirleitt uppspretta allra fordóma). En þegar ég lít til baka þá voru fordómar mínir ekkert óeðlilegir. Við erum alin upp í samfélagi þar sem læknar birtast í auglýsingum og segja þér að þú verðir að drekka tvö mjólkurglös á dag því annars færðu ekki nægilega mikið kalk. “Heilsugeirinn” predikar stöðugt að þú verðir að innbyrða prótein í öll mál annars geturu ekki byggt upp vöðva. Ef þú vilt létta þig þarftu að borða prótein, prótein og aðeins meira prótein. Það er svo mikið um misskilning um næringu í samfélaginu að það er erfitt að vita hvaða næringu á að innbyrða til þess að vera heilbrigður. Þegar ég varð eldri fór ég að hafa áhuga á næringu og hvernig ég gæti notað hana sem einn lið í að ná betri líkamlegum og andlegum árangri. Mig langar að deila með fólki hvernig ég næri mig, hvað mér finnst hafa góð áhrif á mig og hvað ekki. Ég vil taka það fram að ég er ekki næringarfræðingur né með neina menntun á þessu sviði. Ég hef bara aflað mér þekkingar í gegnum bækur, greinar á netinu, heimildarmyndir og svo það sem ég hef prufað og upplifað sjálfur. Ég vil miðla af reynslu minni og dreifa boðskapnum.

En spólum aðeins til baka. Þegar ég var krakki var ég mikill matmaður, ég borðaði allt sem fyrir framan mig var lagt. Þrátt fyrir það var ég frekar horaður á þessum árum (er það reyndar enn í dag) en það var ekki vegna næringarskorts heldur var ég mjög “(of)virkur”. Þegar ég var unglingur pældi ég aldrei í mataræði, borðaði bara allt sem mamma mín eldaði, sem var oftast nokkuð hollt. En þegar matur mömmu minnar var ekki í boði þá borðaði ég mikinn skyndibita eins og margir á þessum aldri. Ég pældi ekkert í næringarlegu gildi, borðaði dominoz pizzur með félögunum, sveittur hamborgari á hamragrilli var vikulegur viðburður, nammibarir verslana voru tæmdir á laugardögum og það var stoppað á McDonalds reglulega (ég starfaði meira að segja þar í 2 ár). Þetta var samband mitt við mat, ekkert. Ég borðaði bara það sem mér fannst gott á bragðið. En það skipti engu máli, ég bætti aldrei á mig, var alltaf mín 4 – 5 % í fitu, og gat hlaupið endalaust.

Árið 2005 spilaði ég mitt fyrsta tímabil með meistarflokki Breiðabliks þar sem ég var byrjunarliðsmaður. Við vorum í fyrstu deild með mjög gott lið byggt að mestu leiti á heimamönnum. Við enduðum í fyrsta sæti og fórum í gegnum tímabilið án þess að tapa. Þetta var fínt ár fyrir mig, ég fékk góða reynslu af meistaraflokksbolta og mikið sjálfstraust á öllum sigrunum. Áfram borðaði ég án þess að hugsa og áfram skipti það ekki máli hvað líkamlega getu varðaði. Árið 2006 spilaði ég minna, var mikið á bekknum, næringin hélst áfram óbreytt. Árið 2007 átti ég mjög gott tímabil sem vakti athygli. Ég var orkumikill gat hlaupið mikið. Ég vann 9 tíma á dag í erfiðisvinnu og æfði síðan ofaná það. Áfram pældi ég ekkert í næringunni og líkamlega virtist það engu máli skipta, þangað til. Í lok tímabilsins lenti ég gjörsamlega á vegg. Ég man að einn daginn var ég algjörlega búinn á því og gat varla vaknað, vildi sofa endalaust. Gríðarleg langtíma þreyta kom yfir mig og ég tók eftir því í leikjunum. Þetta voru allt einkenni ofþjálfunar. Ég gat varla labbað upp stiga án þess að fá mjólkursýru í lærin sem jafnaðist á við erfiða æfingu. Ég þorði ekki að segja neinum frá þessu, því mér fannst þetta svo aulalegt. Ég taldi að þreyta væri ekki viðurkennd sem “meiðsli”. Ég þorði ekki að segja þjálfaranum mínum né neinum öðrum að ég væri þreyttur vegna þess að ég var hræddur við viðbrögðin sem ég hélt að ég fengi. Ég staulaðist í gegnum restina af tímabilinu með hjálp orkudrykkja og annara eiturefna.

Ég gerði í raun ekkert í þessu strax, tímabilið kláraðist og ég tók smá frí en samt ekki. Hélt áfram að æfa sjálfur því ég vildi ekki detta úr formi, því mér fannst öll þreytan geta stafað af því að vera kominn í verra form. Ég gaf skrokknum aldrei þá hvíld sem hann þurfti á að halda og þess vegna hélt ég áfram að grafa dýpri og dýpri holu, ég varð þreyttari og þreyttari. Tímabilið 2008 hélt ég áfram þar sem frá var horfið, ég var farinn að sætta mig við að vera í verra formi en áður, ég var mjög lengi að jafna mig eftir leiki og jafnaði mig í raun aldrei að fullu því ég var djúft sokkinn í langtíma þreytu. Þetta var vítahringur. Ég vildi ekki taka mér frí því ég taldi mig vera í slöku formi, æfði frekar auka og varð þreyttari fyrir vikið. Ég hélt áfram að “nærast” á orkudrykkjum og öðrum hlutum sem gáfu mér skjótfengna orku, en í raun hjálpuðu þessir hlutir bara til við það að grafa mig ennþá dýpra í ofþjálfunar pyttinn. Ég fór í nokkrar blóðprufur sem gáfu það allar til kynna að allt væri í lagi, því taldi ég verra form vera einu skýringuna á slöku líkamlegu ástandi mínu.

Stór hluti af tímabilinu 2009 var svipaður, þangað til að ég ákvað að prufa að breyta mataræðinu. Ég byrjaði á því að fræða mig mjög mikið um næringu, las mikið af greinum héðan og þaðan og horfði á heimildarmyndir. Fyrsta breytingin sem ég gerði var að hætta að drekka gos og borða nammi. Það var frekar auðvelt að hætta því og löngun í þessa hluti hvarf frekar fjlótlega. Samfélagslega var þetta líka auðvelt því það er almennt viðurkennt að þessir hlutir séu óhollir og því sætti fólk sig við þessa ákvörðun mína. Ég færði mig fjlótlega yfir í aukna neyslu á ávöxtum og grænmeti. Byrjaði að blanda mér boozt sem vöktu misjafna athygli hjá ýmsum aðilum fyrir óhefðbundna liti. Þetta fyrsta skref mitt í átt að bættri næringu var ekkert risastórt en ef ég miða við hvernig ég nærði mig áður þá var þetta allavega góð byrjun. Ég hélt áfram á sömu braut og reyndi að bæta mig dag frá degi, smátt og smátt. Ég lagði áherslu á að borða heilnæman mat eða mat sem var eins lítið unninn og hægt var. Ég hætti að borða unnar kjötvörur og mikið unna hluti eins og hvítt hveiti og hvítan sykur, borðaði í staðinn hreint óunnið kjöt og heilkorn. Ég jók neyslu mína á lífrænt ræktuðum hlutum og borðaði meira af grænmeti og ávöxtum.

Þegar tímabilið 2010 var að hefjast var ég farinn að finna mjög greinilegan mun á mér. Ég varð orkumeiri með hverjum deginum sem leið og mér leið töluvert betur líkamlega. Ofþjálfunarþreytan var nánast farin en samt ekki alveg. Hún kom mjög vægt aftur í stuttar stundir þegar ég passaði mig ekki, æfði of mikið og/eða hvíldi of lítið. En þarna var ég kominn á rétta braut, ég fann það á líðan minni. Frá því að borða nammi, drekka gos og borða án þess að hugsa, yfir í að borða mikið af grænmeti og ávöxtum og hreinum mat.

Þegar tímabilið 2011 gekk í garð var ég nánast alveg laus við ofþjálfunareinkennin. Ég hélt áfram á sömu braut í næringunni en reyndi samt alltaf að bæta mig, eitt lítið skref í einu. Á þessum tímapunkti var mér farið að líða töluvert betur líkamlega og var munurinn á mér þarna og í lok árs 2007 eins og svart og hvítt. Ég var hraustur og það þurfti líka meira til þess að ég veiktist. En samt fannst mér ég aldrei ná sömu líkamlegu hæðum og áður.

Í Lok ársins 2011 fór ég að spila í Noregi og þá breyttist mataræðið aftur til hins verra. Ég veit ekki afhverju, kannski var það vegna þess að mér var farið að líða það vel að ég taldi mig ekki þurfa á góðri næringu að halda lengur. Þetta var mjög slök ákvörðun, ég fór kannski ekki alveg aftur í sama farið en ég fór aftur að drekka gos, borða nammi og skyndibita. Öfgamaðurinn inní mér kom fram og ég átti erfitt með að halda neyslu minni á þessum hlutum í hófi. Líkamlega fann ég engan stórkostlegan mun á mér, mér leið áfram ágætlega, líklega vegna þess að ég var búinn að leggja ágætis grunn árin áður.

Í byrjun árs 2012 varð ég síðan veikur, var rúmliggjandi í nokkra daga sem hafði ekki gerst í mörg ár. Mér fannst þetta ekki tilviljun og tengdi þetta strax við slaka næringu, mikla kók og kebab neyslu. Því breytti ég aftur, tók út allan skítinn og bætti gæðunum inn. Ég var í fínu standi þetta tímabil en fannst samt einhvað smá vanta. Ég hélt áfram að lesa mig til og mennta sjálfan mig um þessa hluti. Ég fór að sjá á ýmsum stöðum um mikilvægi grænmetisneyslu, ekkert sem kom á óvart svosem. Nema það að ég fór að lesa greinar um neyslu á dýraafurðum og skaðsemi þeirra á heilsu okkar. Ég las meira og rakst á íþróttafólk sem höfðu gerst grænmetisætur með góðum árangri í sinni íþróttagrein. Ég las bókina the China Study sem er mjög áhugaverð rannsókn á því hvað dýraafurðir og neysla þeirra gerir okkur. Ég horði á heimildarmyndina Forks Over Knives sem tekur í sama streng. Eftir mikla rannsóknarvinnu þá var ég orðinn nokkuð sannfærður um að í minnsta kosti prufa þessa leið, semsagt gerast grænmetisæta. Þetta var í lok árs 2012. Ég ákvað að bíða með þetta þangað til eftir tímabil því ég var ennþá efins á áhrif þessa mataræðis á líkamlega frammistöðu mína sem íþróttamanns. Því var tilvalið að prufa þetta eftir tímabilið þegar líkamlegt álag var minna og ég stjórnaði öllum mínum máltíðum sjálfur.

Í desember 2012 gerðist ég semsagt grænmetisæta eða vegan og hef verið það síðan. Ég reyndar forðast að setja mig í einhvern ákveðinn flokk. Ég borða bara það sem ég tel vera hollt og það vill svo til að það er flokkað sem vegan. Mér finnst byggt á plöntum útskýra mataræði mitt betur. En að mataræði mitt sé byggt á plöntum þýðir, að ég borða ekki neina hluti sem koma frá dýrum. Semsagt ekki kjöt, enga mjólkurafurði og engin egg. En hvað er þá eftir? Í grófum dráttum samanstendur mataræði mitt af Grænmeti, ávöxtum, hnetum, fræjum, baunum og heilu korni. Margir hafa sagt við mig, “er þetta allt og sumt?” eða “þetta er nú ekki mjög fjölbreytt”. En ef þetta er skoðað betur þá er á bakvið hvern flokk gríðarlega fjölbreytt flóra af gæða næringu. Það eru til mörg þúsund tegundir af mismunandi grænmeti, enginn veit nákvæmlega hversu margar þær eru. Eftir að ég fór yfir í grænmetið, borða ég töluvert fjölbreyttara og er óhræddari við að prufa nýja hluti en áður. Þannig að þó mataræði byggt á plöntum virðist í fljótu bragði vera mjög einhæft þá er það það alls ekki. Það er erfitt að sannfæra fólk en þetta er eitthvað sem ég komst að af eigin reynslu.

Munurinn sem ég finn á mér er líka nokkuð magnaður hingað til. Ég var ekki að leitast eftir einhverjum “megrunarkúr” heldur langaði mig bara til þess að bæta eigin heilsu og líkamlega getu í íþróttum. Helsti munurinn sem ég finn á mér er styttri tími í endurheimt eftir erfiðar æfingar og leiki. Einnig er bata tími eftir meiðsli mun styttri. Ég er mun orkumeiri og finnst líkamlegt form betra og meira svigrúm til bætingar. Mér finnst ég stöðugt vera að bæta mig líkamlega. Það er dramantískt að segja þetta en mér finnst hugsun mín skýrari. Það er erfitt að útskýra þetta en mér líður bara betur á öllum sviðum, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt. Eins og staðan er núna þá finnst mér ég vera á réttri braut og ég tými hreinlega ekki að breyta til baka. En þrátt fyrir það þá er ég alltaf að reyna að bæta mig og lesa mig meira til um þessa hluti. Því í þessum bransa þá er mjög erfitt að vita hvað er 100% besti kosturinn.

Eins og ég kom inn á áðan þá er svo mikið um rangar upplýsingar þegar matur er annars vegar og það er erfitt að vita hverjum á að trúa og hverjum ekki. Því tel ég að best sé að fræða sjálfan sig og fara eftir eigin skynsemi. Mín skynsemi segir mér að matur, eins nálægt því formi sem hann kom úr náttúrunni, sé bestur. Mín skynsemi segir mér að mjólk úr annari dýrategund sé ekki nauðsynleg fyrir mannskeppnuna til þess að þróa eðlilega beinheilsu. Mín skynsemi segir mér að matur sem hlaðinn er aukaefnum sem framleidd eru í tilraunastofu geta ekki verið góð fyrir mannslíkamann.

Ég hvet ykkur til þess að trúa ekki öllu sem “heilsugeirinn” segir, fræða ykkur sjálf um næringu, lesa innihaldslýsingar, næra ykkur meðvitað og síðast en ekki síst fara eftir eigin skynsemi þegar kemur að matnum sem þið setjið ofaní ykkar eigin líkama. Þetta er jú eini líkamninn sem við fáum, förum vel með hann.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson
Athugasemdir
banner
banner