Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Írlands hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu liðsins í nýliðnu landsleikjahléi.
Írar lögðu þar Portúgal og Ungverjaland að velli til að tryggja sér annað sætið í undanriðli fyrir HM á næsta ári.
Írar tryggðu sér þannig sæti í umspili um laust sæti á HM og mæta Tékklandi í undanúrslitum.
Heimir var spurður hvort Tékkland væri þægilegur andstæðingur í ljósi taps gegn Færeyjum í undankeppninni í október og þjálfaraskipta strax í kjölfarið.
„Tja, við töpuðum gegn Armeníu og vorum næstum búnir að reka þjálfarann," svaraði Heimir skoplega.
Með þessu skaut hann á írska fjölmiðla sem snérust gegn honum eftir tap gegn Armeníu fyrr í haust. Fjölmiðlar á Írlandi fullyrtu að dagar Heimis í landsliðsþjálfarastarfinu væru taldir, en sú er ekki raunin. Núna furða fjölmiðlar sig á því að Heimi hafi ekki verið boðinn nýr samningur af fótboltasambandinu þar í landi. Það getur verið stutt á milli þess að vera hetja og skúrkur í fótboltaheiminum í dag.
Samkvæmt syni Heimis var honum boðinn nýr samningur hjá írska landsliðinu í haust en Heimir vill ekki vera í starfi þar sem honum líður ekki eins og hann sé velkominn. Hann ákvað því að bíða með að samþykkja samninginn.
22.11.2025 09:30
Heimir vill láta færa stuðningsmenn andstæðingana
Athugasemdir





