Fyrstu undankeppni Arnars Gunnlaugssonar með íslenska landsliðið er lokið. Liðið fór í úrslitaleik gegn Úkraínu um að komast í umspil en tapaði þeim leik, því miður.
Í ljósi þess að fyrstu undankeppninni hjá Arnari er lokið þá fengum við nokkra álitsgjafa til að taka stöðuna og svara nokkrum spurningum. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir voru eftirfarandi:
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari Gunnlaugs fyrir undankeppnina? Rökstuðningur fyrir einkunn líka
2) Hvað var gott?
3) Hvað hefði mátt fara betur?
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Í ljósi þess að fyrstu undankeppninni hjá Arnari er lokið þá fengum við nokkra álitsgjafa til að taka stöðuna og svara nokkrum spurningum. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir voru eftirfarandi:
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari Gunnlaugs fyrir undankeppnina? Rökstuðningur fyrir einkunn líka
2) Hvað var gott?
3) Hvað hefði mátt fara betur?
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari fyrir undankeppnina?
Ætli hann fái ekki 6/10 frá mér. Við vinnum Asera í tvígang, eins og við eigum að gera - en svo situr heimaleikurinn á móti Úkraínu í manni. Það er á endanum leikurinn sem fer með þetta, frekar en endilega útileikurinn á móti þeim.
2) Hvað var gott?
Mér finnst við vera að sjá lið myndast aftur - menn eru að gera þetta fyrir hvorn annan og það er meiri samheldni. Maður sér líka betur hvað Ísland vill standa fyrir og hvers konar fótbolta það ætlar að spila. Svo er líka gott að Arnar náði að koma nýjum leikmönnum inn í hlutina og þannig vonandi auka breiddina fyrir framtíðina.
3) Hvað hefði mátt fara betur?
Heimaleikurinn á móti Úkraínu er klárlega það sem situr mest í manni. Einbeiting dettur niður á stuttum kafla í þeim leik - og sama gerist svo í útileiknum á móti þeim. Það er eitt af þeim atriðum sem gerði íslenska liðið frábært á sínum tíma - það var að einbeitingin í liðinu var mögnuð sem gerði það að verkum að það var ofboðslega erfitt að skora á móti okkur.
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
Já, ég held að það sé alveg klárt. Við erum kröfuhörð á Íslandi - sérstaklega eftir að hafa upplifað það að hafa tekið þátt á stórmóti karla megin - og það þýðir að við viljum alltaf meira. En það tekur tíma að búa til lið og koma inn með sínar áherslur og mér finnst ég sjá það vera að gerast undir stjórn Arnars.
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Klárlega - en það þarf auðvitað margt að ganga upp. En við erum á réttri leið og ef við náum að byggja ofan á þessa undankeppni og ýta enn frekar undir samheldnina að þá getum við það alveg klárlega.
Haraldur Árni Hróðmarsson, fótboltaþjálfari
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari fyrir undankeppnina?
6/10 - Frammistöður liðsins gegn Frökkum og Aserum voru virkilega góðar en þegar upp er staðið fengum við ekki stig gegn Úkraínu og það eru vonbrigði.
2) Hvað var gott?
Það var góður bragur á liðinu og hjálpaði mikið að geta stillt upp sömu varnarlínu alla undankeppnina sem Hareide gat aldrei gert. Sóknarleikurinn var að mestu góður og uppstilltur varnarleikur sömuleiðis.
3) Hvað hefði mátt fara betur?
Varnarleikur liðsins. Þegar boltinn tapaðist var ekki góður og það var afar vont að fá sjö mörk á sig gegn Úkraínu í tveimur leikjum.
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
Já ég er viss um að Arnar sé á réttri leið og liðið taki fleiri jákvæða punkta en neikvæða úr þessari undankeppni. Ekki gleyma að fyrirliði liðsins var fjarverandi vegna meiðsla.
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Það eru góðir möguleikar að komast á EM. Liðið er á besta aldri og hefur alla burði til að gera vel í næstu undankeppni og Þjóðadeild.
Kristján Óli Sigurðsson, Þungavigtin
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari fyrir undankeppnina?
Arnar var harður á því fyrir undankeppnina að hann ætlaði sér annað sætið í riðlinum enda erfitt að gera kröfu á að enda fyrir ofan Frakkland. Við unnum bara tvo leiki og báða gegn Aserum og náðum jafntefli við Frakka hér heima en stóru prófin voru leikirnir gegn Úkraínu og þar kolféllum við á prófinu og fáum á okkur sjö mörk samtals sem á endanum varð okkur að falli.
Mín einkunn er því 4 sem er tala sem ég kannast ágætlega við á þýskuprófum mínum í Verzlunarskóla Íslands seint á síðustu öld.
2) Hvað var gott?
Sóknarleikur liðsins var á köflum mjög góður og skemmtilegur. Við megum heldur ekki gleyma því að við erum án fyrirliða okkar alla undankeppnina. Ef og hefði er þreyttur frasi en með Orra Stein Óskarsson heilan sem framherja í þessum leikjum værum við jafnvel á leið í umspil. Elías sannaði að hann er markvörður í háum klassa. Sverrir Ingi er okkar langbesti varnarmaður, Hákon og Ísak eru leikmenn sem eru með mjög hátt þak og verða lykilmenn í þessari vegferð Arnars að komast á stórmót. Albert sýndi líka á köflum að hann getur gert hluti með boltann sem aðra getur bara dreymt um.
3) Hvað hefði mátt fara betur?
Varnarleikur liðsins í heimaleiknum við Úkraínu situr í mér því mer fannst við gefa þeim mörg af þessum mörkum bara með því að vera sofandi og gefa þeim frí skot fyrir utan teig sem erfitt var að setja kröfur á að Elías myndi verja. Eins fannst mér skrýtið hvað við gerðum fáar skiptingar og seint í leiknum í Azerbajan. Úkraína gaf nánast frá sér leikinn í Frakklandi til að hafa menn ferska í lokaleiknum og hann vannst á síðasta hálftímanum þar sem lykilmenn okkar voru því miður orðnir mjög þreyttir og eðlilega.
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
Já, hann er bara búinn að vera með liðið í tæp ár og það er margt jákvætt í leik okkar. Nú hefur hann Þjóðadeild á næsta ári til að koma sínum áherslum enn betur í hausinn á mönnum og vera klárir í undankeppni EM 2028.
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Fyrir mér er það bara krafa miðað við hversu marga góða leikmenn við eigum í dag. Einu áhyggjur mínar eru að okkur vantar annan alvöru hafsent með Sverri og svo er Gulli ekkert að yngjast og verður enn eldri þegar undankeppnin loks byrjar og Arnar þarf að finna menn í þessar stöður og þá hef ég litlar áhyggjur.
Viktor Unnar Illugason
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari fyrir undankeppnina?
Einkunn, 6.5. Báðir leikirnir á móti Frökkum voru vel spilaðir og vel uppsettir og eins báðir leikirnir við Aserbaídsjan. Í fyrri leik á móti Úkraínu hefði mátt róa leikinn í 3-3 og virða stigið þar. Mér fannst svo rangt liðsval að einhverju leyti í seinni leiknum á móti Úkraínu og mögulega rangt uppsett leikplan. Hefði viljað sjá hann bregðast fyrr við þar.
2) Hvað var gott?
Fótboltinn sem við sýndum á köflum var stórkostlegur og virkilega skemmtilegt að horfa á liðið, eins og heima á móti Aserbaídsjan. Frábær liðsmörk í þeim leik . Mikið possession og jákvæð tölfræði í gangi hjá liðinu og hann fær þjóðina á bak við sig.
3) Hvað hefði mátt fara betur?
Báðir leikirnir á móti Úkraínu hefði mátt gera betur. Fyrri leikurinn góður að einhverju leyti en hefði mátt vera meira úrslitamiðað því jafntefli þar hefði gert helling.
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
Jájá, hann er það. Liðið hefur bætt sig frá því hann tók við og hann mun klárlega líka fá aukna reynslu sem kemur fram í næstu undankeppni og Þjóðadeild. Hann virðist vera búinn að finna sitt lið að einhverju leyti og með skýra sýn hvernig hann vill spila. Þarf að laga færin sem liðið fær á sig og sendingarfeila sem kosta skyndisóknir á okkur.
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Já, það á að vera raunhæft bæði í gegnum Þjóðadeild er möguleiki á umspili og svo á þetta lið að geta endað í öðru sæti í undankeppni. Ungir lykilmenn verða komnir lengra og Arnar reynslunni ríkari. Þurfum hins vegar að finna menn sem taka við keflinu í öftustu línu.
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV
1) Hvaða einkunn myndirðu gefa Arnari fyrir undankeppnina?
Ég myndi gefa Arnari einkunnina 6, líkt og liðinu sjálfu. Mér finnst hann hafa vaxið inn í starfið, og gera sér betur grein fyrir hlutverki sínu sem landslíðsþjálfara.
2) Hvað var gott?
Mér finnst í heildina góð ára yfir liðinu, leikmenn eru óhræddir, það sést sérstaklega þegar við erum með boltann og að mörgu leyti endurspegla leikmenn hugmyndafræði þjálfarans inni á vellinum.
3) Hvað hefði mátt fara betur?
Leikirnir gegn Úkraínu tapast báðir og gera útslagið í keppninni þannig að það er augljóst að þar gátum við gert betur. Þetta eru svipuð lið að styrkleika þar sem Úkraína er ekki með eins gott lið og undanfarin ár. Að mínu mati þá gerum við mistök leikfræðilega séð í báðum þessum leikjum. Þeim fyrri erum við mjög barnalegir í okkar varnarleik og í þeim seinni þá er uppstilling liðsins of flókin leikfræðilega séð miðað við mikilvægi leiksins og þar af leiðandi náum við ekki að nýta okkar bestu sóknarmenn.
4) Er Arnar á réttri leið með liðið?
Landsliðsþjálfari mótast mikið af þeim leikmönnum sem hann hefur, það er enginn félagaskiptagluggi til að rétta hlutina af. Ég tel að við eigum mikið og gott úrval af sóknarþenkjandi leikmönnum núna, óvenjulega mikið. Að sama skapi skortir okkur varnarmenn sem eru nægjanlega afgerandi, en ég tel að þessi blanda eða þessi staða sem er uppi muni ákveða hversu sigursæll Arnar verður sem landsliðsþjálfari. Hann hefur ekki ennþá fundið jafnvægið á milli varnar og sóknar til að taka liðið í fremstu röð.
5) Er raunhæft að Ísland komist á EM 2028?
Sagan hjálpar okkur. Við höfum komist á EM áður og því er það auðvitað hægt. En til þess að það takist þá þurfa fullt af hlutum að ganga upp, það virðist vera komin góð stemmning í leikmannahópinn og þjóðin trúir á þetta lið. Þeir þættir sem ég nefni í dálki fjögur munu hafa mest áhrif á þetta.
Athugasemdir


