HK stefnir að því að leika á nýjum keppnisvelli utandyra innan þriggja ára. Bæjarstjórn Kópavogs hefur nýverið samþykkt deiliskipulag fyrir nýjan knattspyrnuleikvang HK.
Nú stendur yfir forval á hönnun og byggingu mannvirkisins, sem felur í sér stúku með þjónustubyggingu á tveimur hæðum, upphitaðan gervigrasvöll og flóðlýsingu. Útboðinu lýkur næstkomandi miðvikudag, 26. nóvember.
Fótbolti.net ræddi við Sigurjón Hallgrímsson formann fótboltadeildar HK um væntanlegan völl liðsins.
„Ef allt gengur að óskum verður byrjað á framkvæmdunum næsta vor og áætlað að þær taki 12-20 mánuði. Takist þetta eins og allt er lagt upp með á að byrja að spila á vellinum 2028,“ segir Sigurjón.
Tímabært að fara út?
„Það er vert að nefna að umtalið um HK og að spila fótboltaleiki inni hefur oft á tíðum verið ósanngjörn. Það er ekki eins slæmt og fólk segir að spila eða horfa á leiki í Kórnum. Það er þó auðvitað ekki hægt að leyna því að það er löngu kominn tími á að fara út.
Fótbolti á að vera spilaður úti og það myndast allt önnur stemming á leikjum utanhúss. Það mun lyfta öllu félaginu upp. Einnig er aðstaðan hjá HK komin að þolmörkum og með tilkomu nýs íbúðahverfis við Vatnsendann, verður ekki minni þörf á stærri aðstöðu.“
1200 manna stúka
Stúkan mun rísa í norðri við knatthúsið, þar sem núna er æfingavöllur úr grasi. Völlurinn mun uppfylla kröfur KSÍ og UEFA um keppnisvöll sem löglegur er í undankeppni Evrópu.
„Aðstaðan fyrir leikmenn verður hin glæsilegasta og áhorfendur verða ekki sviknir af því að mæta á nýja völlinn. Lagt er upp með að stúkan taki um 1200 manns í sæti og að hönnun geri ráð fyrir stækkun byggingarinnar seinna meir upp í allt að 1500 sæti,“ segir Sigurjón og heldur áfram:
„Knattspyrnudeildin vill koma þökkum á framfæri til bæjarstjórnar fyrir að ganga loksins til verks í máli sem hefur staðið síðan 2013 þegar viljayfirlýsingin var undirrituð.
Einnig eru sérstakar þakkir til þeirra sem lögðu hönd á plóg við að kortleggja þarfir HK í tengslum við þessar framkvæmdir. Það hefur ómæld vinna verið lögð í það af sjálfboðaliðum og er sú vinna ómetanleg og HK heppið að eiga öfluga aðila sem eru tilbúnir að vinna fyrir félagið.“
Frekari skýringarmyndir af deiliskipulaginu má sjá hér.
Frekari upplýsingar má sjá hér.
Athugasemdir



