Man Utd og Liverpool vilja Anderson - Arsenal gæti gert óvænt tilboð í McTominay - Trafford orðaður við Wolves og Newcastle
   fös 21. nóvember 2025 11:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ætlaði sér að fá rautt en sá svo viðbrögð félaga sinna - „Ein stærstu vonbrigðin á ferlinum"
Viktor Jónsson endaði með 18 mörk í Bestu deildinni í fyrra.
Viktor Jónsson endaði með 18 mörk í Bestu deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Ingi.
Elías Ingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór fékk að líta rautt spjald í lok leiksins.
Jón Þór fékk að líta rautt spjald í lok leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Jónsson, framherji ÍA, var gestur í Gula Spjaldinu þar sem hann fór yfir feril sinn til þessa í spjalli við Albert Brynjar Ingason.

Til umræðu kom markið fræga sem var dæmt af ÍA gegn Víkingi haustið 2024. Leikurinn var í 26. umferð deildarinnar og skoraði ÍA mark í uppbótartíma sem hefði getað tryggt liðinu sigur í leiknum. Markið fékk þó ekki að standa og Danijel Dejan Djuric skoraði í kjölfarið sigurmark fyrir Víking hinu megin. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, fékk að líta rauða spjaldið í lok leiks og Viktor ætlaði sér sjálfur að fá rautt.

Víkingur var í titilbaráttu en sigur hjá ÍA hefði komið liðinu í úrslitaleik við Val um Evrópusæti í lokaumferðinni.

Elías Ingi Árnason dæmdi leikinn og ræddi um hann í viðtali í Útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta vetur.

Kemur upp reiði þegar þetta er rifjað upp? spurði Albert Brynjar.

„Það er alltaf ólga, ein stærstu vonbrigðin á ferlinum. Okkur fannst að þetta ætti að gerast, það er rosalega erfitt að hrista þetta af sér," sagði Viktor.

„Það byrjar strax eftir leik, allir voru brjálaðir og bruna í átt að Elíasi. Ég ætlaði sjálfur að ná mér í rautt, ætlaði að gjörsamlega urða yfir hann. En svo sé ég alla hina vera svo brjálaða og þá einhvern veginn skipti ég um gír. Ég náði alveg að róa mig niður og koma mönnum burt. Menn komast inn í hús, en þetta heldur svo áfram þar. Ég vissi að við ættum einn leik eftir, ég var í baráttu um marakóngstitilinn og vildi eiga góðan leik í lokaleiknum. Við fórum inn í hús, ég veit ekki hverjir það voru, ég var kominn inn í klefa, en það var verið að sparka í hurðina á dómaraklefanum. Menn ætluðu sér að komast inn til þeirra, segja eitthvað eða gera eitthvað. Hurðin hefði örugglega verið brotin upp ef það hefði ekki verið stigið inn í. Ég hef sjaldan séð menn jafnheita og þarna."

Hvernig er að hafa Elías sem dómara í leikjum eftir þetta?

„Hann dæmdi einhverja leiki hjá okkur í sumar. Við Jón Þór fórum og lékum í auglýsingu fyrir Stöð 2 Sport með Elíasi, þurftum ekki mikið að leika það. Þar áttum við spjall, auðvitað maður gerir sér grein fyrir því að dómarar gera mistök eins og hver annar. Maður má bara ekki láta þetta hafa áhrif. Auðvitað líður þér eins og hann sé eitthvað á móti þér. Elías er fagmaður og stóð sig vel (í þeim leikjum sem hann dæmdi hjá okkur). jón Þór vildi fá hann til að dæma einn leik á undirbúningstímabilinu hjá okkur svo við værum ekki að fá hann aftur í fyrsta skiptið í deildinni," sagði Viktor en Elías dæmdi leik ÍA og HK á síðasta undirbúningstímabili. Hægt er að hlusta á viðtalið hér að neðan.

Athugasemdir
banner
banner
banner