Allt stefnir í að Íslendingalið Norrköping sé á leið niður í sænsku B-deildina eftir að það tapaði fyrir Örgryte, 3-0, í fyrri leik liðanna í umspilsleik um sæti í úrvalsdeildinni í dag.
Norrköping hafnaði í þriðja neðsta sæti sænsku deildarinnar og mætti því Örgryte sem hafnaði í 3. sæti sænsku B-deildarinnar.
Ísak Andri Sigurgeirsson byrjaði hjá Norrköping á meðan Jónatan Guðni Arnarsson sat allan tímann á varamannabekknum. Arnór Ingvi Traustason var ekki með þar sem hann er að jafna sig eftir að hafa fengið heilahristing.
Sænski framherjinn Noah Christoffersson skoraði tvennu og Daniel Paulson eitt fyrir Örgryte.
Þetta var sjöunda tap Norrköping í röð og erfitt að sjá liðið koma til baka í einvíginu.
FImmtán áru eru síðan Norrköping spilaði síðast í næst efstu deild, en liðið þarf kraftaverk í seinni leiknum sem fer fram eftir viku á heimavelli Íslendingaliðsins.
Guðmundur Þórarinsson kom inn af bekknum í 2-2 jafntefli Noah gegn Alashkert í armensku úrvalsdeildinni. Noah, sem er ríkjandi meistari, er í 5. sæti með 22 stig.
Nóel Atli Arnórsson byrjaði hjá Álaborg sem tapaði fyrir Kolding, 3-0, í dönsku B-deildinni. Ari Leifsson og Jóhannes Kristinn Bjarnason voru ekki í hópnum hjá Kolding. Álaborg er í 6. sæti með 25 stig en Kolding í sætinu fyrir neðan með jafnmörg stig en slakari markatölu.
Athugasemdir




