Guehi til Liverpool - Salah kennt um erfiðleika Wirtz - Tottenham vill markmann - Tchouameni til Man Utd og Toney til Englands
   fös 21. nóvember 2025 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Rooney þénaði tíu sinnum meira en fyrirliðinn
Mynd: EPA
Wayne Rooney, fyrrum framherji Manchester United og enska landsliðsins, þénaði mest 17 milljónir punda í árslaun á ferlinum, eða um tíu sinnum meira en Gary Neville sem var þá fyrirliði liðsins.

Rooney var spurður í þættinum Stick to Football út í stærsta launatékka ferilsins.

Hann sagði frá því þegar hann framlengdi samning sinn við félagið árið 2014 en þá bauð United honum 17 milljónir punda í árslaun, sem var þá einn stærsti samningur Evrópuboltans.

Neville, Roy Keane, Jamie Carragher og Ian Wright voru einnig í þættinum og kom þessi upphæð þeim verulega á óvart, en Neville þénaði mest 1,75 milljónir punda á ári, sem gat hækkað upp í 2,25 milljónir á meðan Carragher þénaði 3 milljónir hjá Liverpool.

Keane sagðist hafa fengið 5 milljónir punda hjá United, en Rooney bar höfuð og herðar yfir þá.

Neville viðurkenndi að hann hafi gert mistök þegar hann endursamdi við United enda hafi hann ekki látið umboðsmanninn um að ræða við félagið.

„Peningurinn var ekki aðalmálið fyrir mér. Ég hafði aldrei áhyggjur af peningalegu hliðinni. Eina sem ég hugsaði um var að geta spilað til 35 eða 36 ára hjá United og þá vissi ég að allt yrði í himnalagi. Það var betra fyrir mig þegar þeir buðu mér sjö ára samning á lægri launum, en að skrifa undir fjögurra ára samning á hærri launum. Ég var alltaf mjög gætinn þegar ég pældi í þessu,“ sagði Neville.
Athugasemdir