Það fóru leikir fram í Leagues Cup mótinu í nótt þar sem félög úr MLS deildinni í Bandaríkjunum og Liga MX í Mexíkó etja kappi.
Lionel Messi var á sínum stað í byrjunarliði Inter Miami en þurfti að fara meiddur af velli eftir 11 mínútur í spennandi slag gegn Necaxa frá Mexíkó.
Liðsfélagar hans tóku forystuna skömmu síðar þegar Rodrigo De Paul lagði upp fyrir Telasco Segovia sem skoraði afar snoturt mark með laglegu skoti utan teigs. Það leið þó ekki á löngu þar til Maximiliano Falcon fékk að líta beint rautt spjald í liði heimamanna í Miami fyrir afar umdeilt brot sem aftasti varnarmaður.
Tíu leikmenn Inter fengu jöfnunarmark á sig í kjölfarið en leikurinn jafnaðist aftur út í síðari hálfleik þegar Cristian Calderon fékk seinna gula spjaldið sitt. Þá var orðið jafnt í liðum og náðu Mexíkóarnir í Necaxa forystunni á lokakaflanum.
Þegar sigurinn virtist vera í höfn fyrir gestina fengu heimamenn dæmda aukaspyrnu úti á hægri kanti og gaf De Paul boltann fyrir. Þar náði einn af lágvöxnustu leikmönnum vallarins, vinstri bakvörðurinn Jordi Alba, að setja boltann í netið með frábærum skalla úr erfiðu færi.
Með þessu tókst Inter að jafna og knýja leikinn í vítaspyrnukeppni, þar sem ekki er leikin framlenging.
Þegar komið var á vítapunktinn skoruðu allar fimm skyttur Inter en Tomas Badaloni klúðraði fyrir Necaxa.
Inter fær tvö stig fyrir að sigra í vítakeppni og er því með fimm stig eftir tvær umferðir. Necaxa fær eitt stig fyrir að tapa í vítakeppni og er með fjögur stig.
Dagur Dan Þórhallsson var þá í byrjunarliði Orlando City sem lagði Atlas að velli með þremur mörkum gegn einu. Hann spilaði fyrstu 55 mínúturnar og var skipt af velli í stöðunni 1-1.
Orlando er með fjögur stig eftir sigurinn. Liðið tapaði í vítakeppni í fyrstu umferð.
Inter 2 - 2 Necaxa
1-0 Telasco Segovia ('12)
1-1 Tomas Badaloni ('33)
1-2 R. Monreal ('81)
2-2 Jordi Alba ('92)
Rautt spjald: Maxi Falcon, Inter ('17)
Rautt spjald: C. Calderon, Necaxa ('60)
5-4 í vítaspyrnukeppni
Orlando 3 - 1 Atlas
1-0 I. Angulo ('9)
1-1 M. Coccaro ('50)
2-1 M. Ojeda ('57)
3-1 M. Pasalic ('103)
Athugasemdir