
„Við skiljum þennan stóra leik eftir og annar stór tekur við. Núna er pressan á okkur, við þurfum að vinna. Þetta er spennandi og krefjandi verkefni á móti góðu liði sem tók hart á okkur í Tékklandi," segir Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, við Fótbolta.net í adg.
Eftir tap gegn Þýskalandi á laugardaginn er möguleikinn á að fara beint á HM úr sögunni. Ísland þarf sigur á morgun til að fara í umspil í október og nóvember um sæti á HM.
Freyr ætlar að gera breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn á morgun en til að mynda er óvíst hvort Rakel Hönnudóttir verði klár í slaginn.
„Já það er mjög líklegt að við skiptum út. Við erum ekki búnir að ákveða hversu mörgum. Það fer aðeins eftir líkamlegu ástandi. Við sjáum það ekki endanlega fyrr en í dag. Það verða 1-3 breytingar á byrjunarliðinu. Það er fyrst og fremst út af taktík en líka út af líkamlegu atgervi."
„Vitum að fólk vill koma en það er bara ekki hægt"
Áhorfendamet var sett á kvennalandsleik á Laugardalsvelli gegn Þýskalandi á laugardaginn. Færri áhorfendur verða á morgun en leikurinn hefst klukkan 15:00 þar sem allir leikir í undankeppninni verða að fara fram á sama tíma.
„Þetta var rosa stór dagur á laugardaginn. Það var mikið af tilfinningum. Við vorum að spila á móti betri mótherja en við settum allt á borðið og reyndum. Það var rosa stemning."
„Stemningin verður allt öðruvísi á þriðjudaginn en það truflar okkur ekkert. Við vitum að fólk vill koma en það er bara ekki hægt. Þeir koma sem geta. Það eru margir skólar að koma og það er frábært framtak. Það verða örugglega í kringum 3000 manns og það er frábært. Við undirbúum okkur undir að spila leikinn og vitum að við höfum stuðning allra. Við látum ekki á okkur fá þó að það verði ekki fullur völlur. Það verður einbeiting á að spila leikinn og ná í úrslit."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Miðasala á leikinn er í gangi á tix.is
Athugasemdir