Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fim 03. október 2024 18:48
Brynjar Ingi Erluson
Stórt tap í fyrsta leik Víkings í Sambandsdeildinni
Mynd: Víkingur R.
Víkingar töpuðu stórt
Víkingar töpuðu stórt
Mynd: Víkingur R.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni
Mynd: Víkingur R.
Omonoia 4 - 0 Víkingur R.
1-0 Senou Coulibaly ('51 )
2-0 Andronikos Kakoulli ('81 )
3-0 Alioum Saidou ('86 )
4-0 Andronikos Kakoulli ('90 )
Lestu um leikinn

Víkingur tapaði fyrsta leik sínum í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld er liðið heimsótti Omonoia frá Kýpur. Heimamenn skoruðu þrjú mörk á síðasta stundarfjórðungi leiksins, í leik sem var annars mjög jafn framan af.

Íslandsmeistararnir voru að þreyta frumraun sína í deildarkeppninni í fyrsta sinn og varð þar með annað íslenska karlaliðið til að komast í deildarkeppni (riðlakeppni) á eftir Breiðabliki.

Víkingar voru með öll völd á leiknum í fyrri hálfleiknum og líklegir til að skora. Nikolaj Hansen og Danijel Djuric komu sér báðir í fín skallafæri en Fabiano, markvörður Omonoia varði vel, en sá var virkilega öruggur í rammanum í kvöld.

Danski leikmaðurinn Tarik Ibrahimagic, sem hefur reynst Víkingum vel undanfarið, fór meiddur af velli á 39. mínútu eftir að Oliver Ekroth sparkaði óvart í andlit hans.

Ekroth var sjálfur að kveinka sér í leiknum og þarfnaðist nokkrum sinnum aðhlynningar, en gat haldið leik áfram.

Víkingar misstu svolítið dampinn eftir að Tarik fór af velli og snemma í þeim síðari skoruðu heimamenn fyrsta mark leiksins er Senou Coulibaly stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu.

Daði Berg Jónsson kom inn á hjá Víkingum á 77. mínútu og kom sér strax í færi tveimur mínútum síðar en setti boltann framhjá markinu.

Omonoia náði að gera annað markið nokkrum mínútum síðar er Ingvar Jónsson sló skot út í teiginn og á Andronikos Kakoulli sem setti boltann í netið.

Varamaðurinn Alioum Saidou bætti við þriðja markinu. Hann fékk að keyra upp allan völlinn og skora, en Ingvar átti mögulega að gera betur.

Allt virðist hafa hrunið hjá Víkingum í restina. Undir lokin átti Valdimar Þór Ingimundarson slaka sendingu til baka sem Kakoulli komst inn í, sólaði Ingvar og skoraði. Hræðilegar lokamínútur hjá Víkingum sem höfðu annars spilað vel framan af.

Lokatölur 4-0 fyrir Omonoia. Víkingar byrjuðu frábærlega og voru líklegri aðilinn en allt hrundi í síðari hálfleik og niðurstaðan því stórt tap. Næsti leikur Víkings í Sambandsdeildinni er gegn belgíska liðinu Cercle Brugge, en sá leikur verður spilaður á Kópavogsvelli 24. október næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner