Magne Hoseth hefur núna tjáð sig um brottrekstur sinn frá Lyngby. Það kom mjög á óvart síðasta föstudag þegar félagið tók ákvörðun um að reka Hoseth eftir aðeins 50 daga í starfi.
Hoseth, sem hætti með Klaksvík í Færeyjum til að taka við Lyngby, stýrði liðinu í aðeins tveimur keppnisleikjum. Hann tók við starfinu eftir að Freyr Alexandersson fór til Belgíu og tók þar við Kortrijk en Freyr hafði gert frábæra hluti með Lyngby.
Í yfirlýsingu frá Lyngby var talað um að Hoseth hefði ekki náð nægilega vel til leikmannahópsins né starfsfólksins. Andreas Bjelland, leikmaður Lyngby, sagði svo opinberlega að Hoseth hefði ekki verið nægilega skýr varðandi hugmyndir sínar.
„Ég veit hver ég og hvað ég stend fyrir sem þjálfari," segir Hoseth. „Ég var öðruvísi en síðasti þjálfari (Freyr) og það var örugglega ákveðið sjokk. En ég vil ekki sitja hérna og tala illa um neinn."
„Ég er kannski hljóðlátur. Ég er ekki sá sem talar hæst allra. Ég er bara öðruvísi þjálfari en hann er (Bryder, stjórnarmaður Lyngby) er vanur."
Hoseth segist sjá eftir einu frá tíma sínum í Lyngby. „Ég sé eftir því að hafa ekki verið með mitt eigið þjálfarateymi. Það er erfitt að koma fram með sínar eigin hugmyndir þegar fólk er ekki sammála. Þá er það vandamál."
Hoseth segist núna ætla að taka sér frí og endurhlaða batteríin.
Athugasemdir