Serbneski framherjinn Luka Jovic er á leið til gríska félagsins AEK á frjálsri sölu en hann gerir tveggja ára samning.
Jovic er 27 ára gamall og var einn mest spennandi framherji heims fyrir sex árum.
Hann gekk þá í raðir Real Madrid eftir að hafa slegið í gegn hjá Eintracht Frankfurt en ferill hans hefur því miður farið hratt niður á við síðustu ár.
Serbinn fann sig aldrei hjá Madrídingum og var á endanum lánaður aftur til Frankfurt. Þaðan fór hann til Fiorentina og svo til AC Milan áður en samningur hans rann út í sumar.
Fabrizio Romano segir hann nú vera að gera tveggja ára samning við AEK í Grikklandi eftir að hafa hafnað Real Oviedo á Spáni.
Áhugavert skref hjá Jovic sem vonast til þess að koma ferlinum aftur á flug.
Argentínumaðurinn Erik Lamela, sem spilaði með Tottenham, Roma og Sevilla, hefur rift við AEK eftir eins árs dvöl. Hann kom að átta mörkum í 24 deildarleikjum með liðinu, en spilaði ekki eins margar mínútur og hann hefði viljað.
Tímabilið var ekki algjör vonbrigði fyrir Lamela sem vann verðlaun fyrir flottasta mark tímabilsins er hann þandi netmöskvana gegn PAOK með viðstöðulausu þrumuskoti fyrir utan teig.
Athugasemdir