Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   sun 04. september 2022 17:25
Brynjar Ingi Erluson
England: Rashford aðalmaðurinn í sigri Man Utd á Arsenal
Marcus Rashford skoraði tvö og lagði upp eitt á Old Trafford
Marcus Rashford skoraði tvö og lagði upp eitt á Old Trafford
Mynd: EPA
Bukayo Saka jafnaði fyrir Arsenal
Bukayo Saka jafnaði fyrir Arsenal
Mynd: EPA
Ástríðan var mikil í þessum erkifjendaslag
Ástríðan var mikil í þessum erkifjendaslag
Mynd: EPA
Manchester Utd 3 - 1 Arsenal
1-0 Antony Santos ('35 )
1-1 Bukayo Saka ('60 )
2-1 Marcus Rashford ('66 )
3-1 Marcus Rashford ('75 )

Manchester United vann fjórða leik sinn í röð í ensku úrvalsdeildinni er liðið fékk Arsenal í heimsókn á Old Trafford. Lokatölur 3-1 fyrir United þar sem Marcus Rashford skoraði tvö og lagði upp eitt.

Gestirnir töldu sig hafa tekið forystuna á 11. mínútu. Bukayo Saka átti frábæra sendingu inn fyrir á Gabriel Martinelli sem kláraði í hægra hornið.

Paul TIerney, dómari leiksins, var sendur að VAR-skjánum til að skoða mögulegt brot í aðdragandanum. Í endursýningu sést þar að Martin Ödegaard ýtir við Christian Eriksen og markið dæmt ógilt.

Antony var að spila sinn fyrsta leik fyrir United síðan hann kom frá Ajax. Hann hafði sýnt skemmtilega takta í leiknum og skoraði síðan á 35. mínútu. United keyrði hratt fram, boltinn endaði hjá Rashford sem lagði hann til hliðar inn í teiginn á Antony sem kom boltanum framhjá Aaron Ramsdale og í netið.

Markið var gegn gangi leiksins. Arsenal hafði verið betri aðilinn en það er ekki spurt að því. Mörkin telja.

Arsenal hélt áfram að pressa í þeim síðari. Bukayo Saka átti tvö góð færi, annað þeirra sem fór í slá. Hann klikkaði hins vegar ekki á 60. mínútu. Gabriel Jesus fékk boltann í teignum en boltinn hrökk af honum til hægri á Saka sem átti ekki erfitt með að skila honum í markið.

Marcus Rashford tók síðan völdin. Hann kom United aftur í forystu á 66. mínútu. Bruno Fernandes átti stórkostlega sendingu inn fyrir á Rashford sem var einn gegn Ramsdale og kláraði hann það listavel.

Hann var síðan aftur á ferðinni níu mínútum síðar. Christian Eriksen slapp í gegn og var með Rashford vinstra megin við sig. Danski landsliðsmaðurinn beið, var óeigingjarn og lagði síðan boltann til vinstri á Rashford sem skoraði.

Lokatölur 3-1 fyrir United sem var að vinna fjórða leik sinn í röð í deildinni á meðan Arsenal var að tapa fyrsta leik sínum. Arsenal er þrátt fyrir það áfram á toppnum með 15 stig en United í 5. sæti með 12 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner