Arsenal er komið í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa lagt nágranna sína í West Ham að velli, 2-0, á Emirates-leikvanginum í dag. Manchester United vann þá nýliða Sunderland, 2-0, á Old Trafford.
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal unnu West Ham nokkuð sannfærandi.
Jurrien Timber átti ágætis færi sem Alphonse Areola varði og þá átti Eberechi Eze að koma liðinu yfir er boltinn barst til hans eftir að Viktor Gyökeres djöflaðist fyrir framan markið. Eze skaut hins vegar boltanum hátt yfir markið úr ákjósanlegu færi.
Bukayo Saka kom boltanum í netið er hann laumaði sér í gegn af hægri vængnum, en markið dæmt af vegna rangstöðu. Rétt ákvörðun hjá línuverðinum og gat West Ham andað léttar en þó aðeins um stundarsakir.
Declan Rice skoraði gegn sínum gömlu félögum eftir að Areola varði tilraun Eze út á Rice sem setti boltann í netið.
Arsenal-menn voru í basli með að loka leiknum, svipað og gegn Olympiakos í vikunni, en náðu þessu mikilvæga öðru marki undir lok leiksins er brotið var á Timber í teignum og skoraði Saka örugglega úr vítaspyrnunni.
Arsenal er komið á toppinn með 16 stig, einu stigi meira en Liverpool sem er í öðru, en West Ham í næst neðsta sæti með aðeins 4 stig.
Lífsnauðsynlegur sigur hjá Amorim og Man Utd
Öll augu voru á leik Manchester United og Sunderland, en það var talað um þennan leik sem síðasta séns Ruben Amorim, stjóra United, til þess að halda starfinu.
Leikmenn Man Utd tóku ábyrgð og lönduðu góðum 2-0 sigri á Old Trafford.
Senne Lammens fékk tækifærið í markinu, rúmum mánuði eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá Antwerp.
Mason Mount, sem kom inn í liðið í stað Matheus Cunha, skoraði á 8. mínútu eftir fyrirgjöf frá Bryan Mbeumo. Mount tók skemmtilega á móti boltanum í teignum og setti hann hnitmiðað neðst í hægra hornið.
Benjamin Sesko bætti við öðru marki á 31. mínútu sem var annað deildarmark hans eftir að varnarmenn Sunderland voru í basli með að hreinsa frá langt innkast Diogo Dalot.
Sunderland fékk færin til þess að komast aftur inn í leikinn. Lammens átti flotta frumraun og varði bæði frá Granit Xhaka og síðar Chemsdine Talbi.
Man Utd sigldi þessu heim og er komið upp í 8. sæti með 10 stig en Sunderland í 6. sæti með 11 stig.
Arsenal 2 - 0 West Ham
1-0 Declan Rice ('38 )
2-0 Bukayo Saka ('67 , víti)
Manchester Utd 2 - 0 Sunderland
1-0 Mason Mount ('8 )
2-0 Benjamin Sesko ('31 )
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Arsenal | 7 | 5 | 1 | 1 | 14 | 3 | +11 | 16 |
2 | Liverpool | 7 | 5 | 0 | 2 | 12 | 8 | +4 | 15 |
3 | Tottenham | 7 | 4 | 2 | 1 | 13 | 5 | +8 | 14 |
4 | Bournemouth | 7 | 4 | 2 | 1 | 11 | 8 | +3 | 14 |
5 | Crystal Palace | 6 | 3 | 3 | 0 | 8 | 3 | +5 | 12 |
6 | Chelsea | 7 | 3 | 2 | 2 | 12 | 8 | +4 | 11 |
7 | Sunderland | 7 | 3 | 2 | 2 | 7 | 6 | +1 | 11 |
8 | Man City | 6 | 3 | 1 | 2 | 14 | 6 | +8 | 10 |
9 | Man Utd | 7 | 3 | 1 | 3 | 9 | 11 | -2 | 10 |
10 | Everton | 6 | 2 | 2 | 2 | 7 | 6 | +1 | 8 |
11 | Brighton | 6 | 2 | 2 | 2 | 9 | 9 | 0 | 8 |
12 | Fulham | 7 | 2 | 2 | 3 | 8 | 11 | -3 | 8 |
13 | Leeds | 7 | 2 | 2 | 3 | 7 | 11 | -4 | 8 |
14 | Brentford | 6 | 2 | 1 | 3 | 9 | 11 | -2 | 7 |
15 | Newcastle | 6 | 1 | 3 | 2 | 4 | 5 | -1 | 6 |
16 | Aston Villa | 6 | 1 | 3 | 2 | 4 | 6 | -2 | 6 |
17 | Nott. Forest | 6 | 1 | 2 | 3 | 5 | 10 | -5 | 5 |
18 | Burnley | 6 | 1 | 1 | 4 | 6 | 13 | -7 | 4 |
19 | West Ham | 7 | 1 | 1 | 5 | 6 | 16 | -10 | 4 |
20 | Wolves | 6 | 0 | 1 | 5 | 4 | 13 | -9 | 1 |
Athugasemdir