Man Utd með Stiller og Gallagher á blaði - Liverpool með augu á Semenyo - Newcastle vill fá Anderson aftur
   fim 23. október 2025 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Stefán Ingi sló félagsmet og opinberaði leyndarmál í fagninu
Skoraði og sagði frá því að hann og unnusta hans, Heiðrún Arna Ottesen, ættu von á barni.
Skoraði og sagði frá því að hann og unnusta hans, Heiðrún Arna Ottesen, ættu von á barni.
Mynd: Sandefjord
Kominn með þrettán mörk á tímabilinu í norsku úrvalsdeildinni.
Kominn með þrettán mörk á tímabilinu í norsku úrvalsdeildinni.
Mynd: Sandefjord
Stefán Ingi Sigurðarson skráði sig um síðustu helgi í sögubækurnar hjá norska félaginu Sandefjord þegar hann skoraði sitt þrettánda mark í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Enginn í sögu félagsins hefur skorað fleiri mörk fyrir liðið á einu tímabili í deildinni.

„Það er gaman og mikill heiður. Liðsfélagi minn lét mig vita að ég væri mjög nálægt þessu, annars hefði ég líklegast ekki vitað af þessu fyrr en eftir markið. Ég heyrði af þessu þegar ég var kominn með ellefu mörk, þannig hafði ekki vitað af þessu mjög lengi," segir Stefán við Fótbolta.net.

Markið var skallamark eftir lagleg tilþrif frá kantmanninum Jakob Dunsby í aðdragandanum.

Fagn Stefáns vakti athygli en hann setti boltann undir treyjuna.

„Unnusta mín og ég eigum von á barni í lok mars. Við höfum verið að halda þessu leyndu þannig séð, höfum ekki tilkynnt þetta opinberlega. Ég fékk leyfi til þess að taka þetta fagn þegar ég myndi skora næst. Fyrir þar síðasta leik fékk ég það leyfi, náði ekki að skora þá, þurfti að bíða yfir landsliðspásuna og náði sem betur fer að taka þetta fagn í fyrsta leik eftir pásuna. Ég sagði að mig langaði að taka þetta fagn og hún var sammála um að þetta væri skemmtilegt. Það var extra gaman því ég var ekki búinn að segja liðsfélögunum frá þessu, bara einn í liðinu sem vissi af þessu og ég kom hinum öllu í opna skjöldu. Í fagninu þurftu þeir að spyrja mig hvort ég væri að grínast eða ekki, ég hafði gaman af því," segir Stefán.

Framherjinn, sem kom frá belgíska félaginu Patro Eisden sumarið 2024, hefur skorað tvö mörk í síðustu þremur leikjum Sandefjord og er þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar. Ekkert af mörkunum hefur komið úr vítaspyrnu. Mörkin hans eru líka yfirleitt ávísun á stig fyrir félagið.

„Það hefur alltaf komið sigur þegar ég hef skorað, nema í leiknum á móti Kristiansund úti, þá kom bara eitt stig."

Þrettánda markið kom í útisigri gegn Molde sem er stórt félag í Noregi. „Við unnum þá líka á útivelli í fyrra, Molde er stór klúbbur og gott að vinna þá. Þetta var því miður bara þriðji útisigurinn okkar á tímabilinu, höfum verið dálítið slappir á útivelli, þannig það var fínt að ná þessum sigri inn," segir Stefán.

Sandefjord er í fimmta sæti norsku deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir og hefur komið mjög mörgum á óvart með öflugri spilamennsku á tímabilinu. Nánar var rætt við Stefán Inga og verður lengra viðtal birt á morgun.
Athugasemdir
banner
banner